Árás Bandaríkjahers á herstöðina í Sýrlandi eyðilagði fimmtung herflugvélaflota forsetans Bashar al-Assad. Þetta segir varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Jim Mattis.
„Greining varnarmálaráðuneytisins er á þann veg að árásin olli skemmdum eða eyðileggingu á eldsneytis- og skotfærastöðvum, möguleika til loftvarna og 20 prósentum af starfhæfum flugvélum Sýrlands,“ segir í yfirlýsingu ráðherrans.
„Sýrlenska ríkisstjórnin hefur misst möguleikann á að fylla á eldsneyti eða vopnabirgðir flugvéla á Shayrat-flugvellinum og á þessum tímapunkti kemur flugvöllurinn að litlum notum,“ bætir hann við.
Áður hafði talsmaður Bandaríkjahers fullyrt að árásin hefði eyðilagt fleiri en tuttugu þotur sýrlensku stjórnarinnar.
Mattis segir árásina „yfirvegað svar“ við notkun ríkisstjórnarinnar á efnavopnum.