Ekki verður gripið til efnahagsþvingana gegn Rússlandi og Sýrlandi vegna efnavopnaárásar sýrlenska stjórnarhersins á bæinn Khan Sheikhoun í síðustu viku. Segir fréttavefur BBC utanríkisráðherra G7 ríkjanna, sem fundað hafa á Ítalíu, ekki hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu í málefnum Sýrlands.
Meðal þess sem ráðherrarnir ætluðu að koma sér saman um var að reyna að fá stjórnvöld í Rússlandi til að slíta á tengsl sín við Bashar Al-Assad Sýrlandsforseta og stjórn hans.
Tillaga Breta um að beita þjóðirnar efnahagsþvingunum fékkst ekki samþykkt, en fundarmenn voru allir sammála um að engin lausn fyndist á Sýrlandsstríðinu á meðan að Assad væri enn við völd.
Sýrlandsstjórn hefur alfarið hafnað því að hún hafi staðið fyrir efnavopnaárás á Khan Sheikhoun, sem er á svæði uppreisnarmanna í Idlib héraði, sem kostaði 89 manns lífið.
Bandaríkin brugðust við með því að gera loftárás á herstöð í Sýrlandi, sem þau sögðu hafa verið notaða í efnavopnaárásinni
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði eftir fund G7 ríkjanna, að loftárásin hefði verið „nauðsynlegur þáttur í þjóðaröryggi Bandaríkjanna“.
„Við viljum ekki að óskráðar efnavopnabirgðir stjórnarinnar falli í hendur Ríkis íslams eða annarra hryðjuverkahópa sem vilja ráðast gegn Bandaríkjunum eða bandamönnum þeirra,“ sagði Tillerson.
Hann bætti við að Bandaríkin sæju stjórn Assad ekki geta setið við völd til langframa. Hún hefði í raun misst lögmæti sitt „með árásum af þessu tagi.“
Tillerson er nú á leið til Moskvu, þar sem hann mun ræða við ráðamenn um málefni Sýrlands. Segir BBC hann vonast til að ná að sannfæra rússnesk stjórnvöld um að Assad sé óáreiðanlegur samherji.
Angelino Alfano, utanríkisráðherra Ítalíu, sagði ráðherrana vilja ræða við Rússa um að auka þrýsting á Assad, en bætti við: „við megum ekki króa Rússa af“.
„Við teljum að Rússar hafi þann áhrifamatt sem þarf til að setja þrýsting á Assad og fá hann til að virða skuldbindingarnar sem þarf fyrir vopnahlé,“ sagði hann.
BBC segir heimsókn Tillerson til Moskvu segja sitt. Rússnesk stjórnvöld hafi brugðist reið við loftárás Bandaríkjanna á Sýrland í síðustu viku. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, er engu að síður reiðubúinn að hitta Tillerson og vera kann að Vladimír Pútín Rússlandsforseti fundi með honum líka.
Það hefur þó sýnt sig í gegnum tíðina að Rússar bregðast ekki vel við hótunum og því kann Tillerson að þurfa að endurhugsa tilraunir sínar til að fá þá til að láta af stuðningi við Assad. Sýrlandsforseti hefur verið lykilbandamaður Rússa í Miðausturlöndum og þau hafa eytt ómældu fjármagni og herstuðningi til að halda honum við völd.