Grísk stjórnvöld tilkynntu í dag að þau hefðu gengið frá sölu á fjórtán flugvöllum í landinu til þýska fyrirtækisins Fraport en samið var um söluna í 2015 í tengslum við samkomulag um alþjóðlegar lánafyrirgreiðslur til landsins til þess að koma í veg fyrir að það yfirgæfi evrusvæðið.
Flugvellirnir sinna innanlandsflugi í Grikklandi og voru áður í eigu gríska ríkisins. Aðþjóðlegir lánadrottnar landsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið, settu það sem skilyrði fyrir lánafyrirgreiðslum að grísk stjórnvöld færu út í umfangsmikla einkavæðingu ríkiseigna.
Meðal annars er um að ræða flugvöllinn í Þessalóníku og á eyjunum Mýkonos, Santorini og Korfú sem eru vinsælir ferðamannastaðir. Þýska fyrirtækið greiðir 1,2 milljarð evra fyrir flugvellina og skuldbindur sig til þess að starfrækja þá og viðhalda næstu 40 árin.