Hleruðu ráðgjafa Trumps

Alríkislögreglan, FBI, fékk heimild til þess síðasta sumar að fylgjast …
Alríkislögreglan, FBI, fékk heimild til þess síðasta sumar að fylgjast með ráðgjafa Donalds Trump. AFP

Alríkislögreglan í Bandaríkjunum, FBI, fékk síðasta sumar heimild með leynd til að fylgjast með samskiptum ráðgjafa Donalds Trump í kosningabaráttunni. Var um að ræða hluta af rannsókn á meintum tengslum milli Rússa og þeirra sem stóðu að kosningabaráttunni.

Þetta kemur fram í frétt Washington Post í dag. 

FBI og dómsmálaráðuneytið fengu dómsúrskurð sem gaf lögreglunni færi á að fylgjast með samskiptum Carters Page. Hafði FBI þá sannfært dómara um að það væru meiri líkur en minni á að Page væri á mála hjá erlendu ríki, í þessu tilviki Rússlandi.

Í frétt Washington Post kemur fram að þetta sé ein helsta sönnun þess hingað til að FBI hafi haft ástæðu til að ætla að ráðgjafi úr teymi Trumps hefði verið í samskiptum við Rússa meðan á kosningabaráttunni stóð síðasta sumar. Þessi tengsl eru nú til enn frekari rannsóknar sem snýr að því að upplýsa hvort Rússar hafi haft áhrif með einhverjum hætti á úrslit kosninganna.

Í frétt Washington Post segir að Page hafi ekki verið sakaður um neitt glæpsamlegt og alls óvíst er hvort dómsmálaráðuneytið muni ákæra hann fyrir meint tengsl við Rússa í kosningabaráttunni.

Í fréttinni kemur enn fremur fram að rannsókn FBI á meintum afskiptum Rússa af kosningabaráttunni hafi hafist í júlí. 

Ítarlega frétt Washington Post um málið er að finna hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert