Mögulega árás íslamista

Lögreglumenn á vettvangi árásarinnar.
Lögreglumenn á vettvangi árásarinnar. AFP

Rannsókn þýsku lögreglunnar á sprengjuárás á rútu þýska knattspyrnuliðsins Borussia Dortmund beinist meðal annars að því hvort árásin hafi verið gerð af íslamistum eftir að bréf fannst á vettvangi þar sem vísað er til hryðjuverkaárásarinnar í Berlín um síðustu jól þar sem tólf manns létu lífið. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu óðdæðinu á hendur sér.

Frétt mbl.is: „Erum allir í sjokki“

Lýst er yfir ábyrgð á árásinni á rútuna í bréfinu að sögn saksóknarans Söndru Luecke en verið sé að rannsaka bréfið. Einnig er minnst á þátttöku Þjóðverja í hernaði gegn Ríki íslams. Fram kemur í frétt AFP að Luecke hafi ekki viljað upplýsa að öðru leyti hvað standi í því. Tveir særðust í árásinni á rútuna en liðið var á leið í knattspyrnuleik gegn liði Mónakós.

Telja of snemmt að tala um hryðjuverk

Þýsk stjórnvöld hafa enn ekki vilja staðfesta að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða á þeim forsendum að of snemmt sé að fullyrða um markmið árásarinnar. Hins vegar hefur rannsókn málsins verið tekin yfir af saksóknurum sem hafa meðal annars mál sem snúa að hryðjuverkum á sinni könnu. Þýsk yfirvöld hafa verið í viðbragðsstöðu eftir fyrri árásir.

Rútan eftir árásina.
Rútan eftir árásina. AFP

Þrjár sprengjur sprungu nokkrum mínútum eftir að rúta Borussia Dortmund lagði af stað frá hóteli liðsins. Spænski varnarmaðurinn Marc Bartra þurfti að gangast undir aðgerð vegna brotins úlnliðar eftir að glerbrot rigndu yfir hann. Þá særðist lögreglumaður á vélhjóli sem fylgdi rútunni. Lögreglan telur árásina hafa beint meðvitað að rútu knattspyrnuliðsins.

Lögreglan sögð leita að flóttabifreið

Sprengjurnar voru faldar í limgerði og sprengdar þegar rútan ók hjá um klukkan 17:00 að íslenskum tíma. Sprengingarnar brutu rúður rútunnar og hún varð fyrir brunaskemmdum á hægri hliðinni. Haft er eftir markverðinum Roman Burk að eftir að sprengjurnar sprungu hafi liðsmenn beygt sig niður í rútunni og óttast að fleiri sprengjur myndu springa.

Frétt mbl.is: Árásin á rútuna skipulögð

Þýskir fjölmiðlar hafa greint frá því að lögreglan sé að leita að bifreið sem notuð hafi verið til þess að flýja vettvang. Bifreiðin hafi verið með erlendar númeraplötur. Einnig að lögreglan telji að um rörasprengjur hafi verið að ræða. Vonir standa til þess að liðsmenn Borussia Dortmund verði klárir í slaginn síðar í dag þegar leikurinn við Mónakó verður leikinn.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert