Tillerson og Lavrov vilja hreinskiptar viðræður

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, funda …
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, funda í Moskvu í dag. AFP

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fundar í dag með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Tillerson sagði, áður en fundur þeirra hófst, að hann vonist eftir hreinskiptum viðræðum um samskipti ríkjanna.

„Ég hlakka til mjög opinna, einlægra og hreinskiptra umræðna,“ sagði Lavrov við fréttamenn áður en fundur þeirra hófst. Fram hefur komið að rússnesk stjórnvöld vænti þess að Tillerson veiti þeim skýringar á loftárás sem Bandaríkin gerðu á herstöð sýrlenska hersins í kjölfar efnavopnaárásarinnar á bæinn Khan Sheikhoun í síðustu viku.

Tillerson, sem er fyrsti ráðherrann í stjórn Donald Trumps Bandaríkjanna til að heimsækja Rússland, kvaðst einnig hlakka til opinna og hreinskiptra umræðna. „Þannig að við getum betur skilgreint leiðina fram á við í samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands,“ sagði Tillerson.

Áður hefur komið fram að Tillerson vonist til að fá Rússa til að láta af stuðningi sínum við Bashar Al-Assad Sýrlandsforseta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert