Sprengjan sem Bandaríkjaher varpaði á skotmark tengdu Ríki íslams í Afganistan í dag er ekki aðeins risastór heldur gríðarlega kraftmikil og hefur þar af leiðandi mikinn eyðileggingarmátt. Enn hafa engar fréttir borist af því hvort og þá hversu mikið mannfall varð í árásinni sem var gerð um kl. 15 að íslenskum tíma.
Sprengjan heitir GBU-43/B Massive Ordnance Air Blast Bomb (MOAB) og er oftast kölluð „móðir allra sprengja“. Hún er stærsta sprengjan í vopnabúri Bandaríkjanna sem ekki er kjarnorkuvopn. Hún var í fyrsta sinn notuð í hernaði í dag en var þróuð í Íraksstríðinu og m.a. sprengd í tilraunaskyni árið 2003.
Sjónarvottar að árásinni í dag segja að eldsúlur hafi stigið til himins og að sprengingin sé sú stærsta sem þeir hafa séð.
Bandaríkjamenn segja að skotmarkið hafi verið jarðgangakerfi og hellar þar sem vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams hafast við og nota til að komast um nú þegar nokkuð hefur dregið úr styrk þeirra í landinu í kjölfar fjölmargra loftárása að undanförnu. Árásin var gerð í Achin en á þeim slóðum eru vígamenn Ríkis íslams atkvæðamiklir.
Greinin heldur áfram fyrir neðan myndbandið.
Í fréttaskýringu BBC um málið segir að notkun á sprengju sem þessari þarfnist ekki sérstaks samþykkis Bandaríkjaforseta en Donald Trump hefur í dag neitað að svara því hvort að hann hafi persónulega gefið grænt ljós á notkun hennar. Þetta er af því að hún er ekki kjarnavopn.
En stór er hún. Níu metra löng og 9,8 tonn að þyngd, þ.e. 9.800 kíló. Hún er útbúinn GPS-stýribúnaði og var varpað frá borði flutningavélar af gerðinni MC-130. Hún á að springa skömmu eftir að hún lendir á jörðinni.
Sprengjunni er varpað frá borði á nokkurs konar vörubretti sem síðan fer undan henni með aðstoð fallhlífar. Vopninu er svo stýrt með fjórum örmum, sem helst líkjast uggum.
Sprengingunni fylgir gríðarmikil höggbylgja sem sögð er geta náð í marga kílómetra í allar áttir. Höggbylgjan verður vegna þeirra 8.200 kílóa af sprengiefninu TNT sem er innan í henni.
Í fréttaskýringu BBC kemur ennfremur fram að skel sprengjunnar sé úr áli og hafi verið hönnuð með það í huga að hámarka umfang sprengingarinnar.
MOAB er sérstaklega hönnuð til að skemma neðanjarðarbyrgi, eins og þau sem varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna segja að hafi verið ráðist á í dag.
Vopnið var hannað til að nota í Íraksstríðinu og er hver sprengja sögð kosta 16 milljónir dollara eða 1.800 milljónir króna. Sprengja þessi hefur hins vegar aldrei verið notuð í hernaði fyrr en nú.
Rússar hafa hannað sína eigin risavöxnu sprengju sem hefur hlotið viðurnefnið „faðir allra sprengja“, skammstafað FOAB á ensku.
Stór hluti af þeirri ógn sem risastór sprengja eins og MOAB á að skapa er sálfræðileg, þ.e. hún á að sýna hernaðarmátt andstæðingsins.
Í fréttaskýringu á CNN um beitingu sprengjunnar segir að með notkun hennar hafi Donald Trump Bandaríkjaforseti staðið við þau orð sín að skjóta Ríki íslams í tætlur, eða eins og hann orðaði það í ræðu sem hann hélt í nóvember í fyrra: „I would bomb the s**t out of them. I'd just bomb those suckers. I'd blow up the pipes, I'd blow up the refineries, I'd blow up every single inch—there would be nothing left."
Fréttaskýrendur um allan heim hafa í dag velt fyrir sér áhrifum og afleiðingum þessarar óvenjulegu árásar. Enn eiga áhrif sprengingarinnar eftir að verða ljós. Óvíst er hvort mannfall varð og þá hversu mikið. Í fréttum af atburðum dagsins hefur m.a. verið tekið fram að fréttir af árásinni, sem beint er gegn Ríki íslams, komi strax í kjölfar þess að varnarmálaráðuneytið viðurkenndi að hafa fellt átján uppreisnarmenn í Sýrlandi fyrir mistök. Í þeirri árás voru gefnar rangar upplýsingar um skotmarkið og niðurstaðan varð að uppreisnarmenn úr Sýrlensku lýðræðishreyfingunni, sem Bandaríkjamenn styðja, létu lífið.
Og nú er spurt: Var sprengjunni varpað á rétt skotmark í Afganistan?