Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur skipt um skoðun á stöðu Atlantshafsbandalagsins (NATO) og telur það ekki lengur úrelt eins og hann hafði áður ítrekað sagt. Einkum í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum á síðasta ári.
Trump sagði í tengslum við fund með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, í Hvíta húsinu í Washington-borg í Bandaríkjunum í gær að hryðjuverkaógnin undirstrikaði mikilvægi bandalagsins. Kallaði hann eftir því að NATO legði meira af mörkum til þess að aðstoða stjórnvöld í Afganistan og Írak.
Trump sagði við blaðamenn eftir fundinn með Stoltenberg að þeir hafi rætt um hvað NATO gæti gert meira í baráttunni gegn hryðjuverkum. „Ég kvartaði yfir því fyrir löngu síðan og þeir komu á breytingum og núna berjast þeir gegn hryðjuverkum. Ég sagði að [NATO] væri útelt. Það er ekki lengur úrelt,“ sagði Trump samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Forsetinn ítrekaði þó kröfu sína um að NATO-ríki legðu meira af mörkum til þess að tryggja nauðsynlegt fjármagn til varnarmála.