Framkvæmdastjóri dýragarðsins í Varsjá, höfuðborg Póllands, og eiginkona hans gengu alltaf um með blásýru á sér á meðan á síðari heimsstyrjöldinni stóð. Þau voru reiðubúin að taka með sér í gröfina leyndarmálið sem þau bjuggu yfir. Leyndarmál sem hefði líklega kostað þau lífið og jafnvel kvalafullan dauðdaga. Saga þeirra hefur nú verið sögð á hvíta tjaldinu en kvikmyndin „The Zookeeper's Wife“ var frumsýnd í Bandaríkjunum 7. apríl.
Hjónin Jan Zabinski og eiginkona hans Antonina földu tæplega 300 gyðinga í dýragarðinum á meðan á styrjöldinni stóð í raun beint fyrir framan nefið á þýska hernámsliðinu. Flestir gyðinganna áðu stutt við og höfðu flúið úr gettóum í Varsjá þar sem þýsk hernámsyfirvöld höfðu safnað þeim saman. Síðar voru gettóin rýmd og gyðingarnir fluttir í fangabúðir þýskra nasista þaðan sem fáir áttu afturkvæmt. Aðrir vörðu löngum tíma í dýragarðinum.
Margir gyðinganna höfðust við í gluggalausum kjallara íbúðarhúss hjónanna í dýragarðinum en þaðan lágu göng út í garðinn. „Ég man eftir mér húkandi undir steinsteypugólfinu yfir kjallaranum og með höndina fyrir munni systur minnar til þess að minna heyrðist þegar hún grét vegna þess að hún grét stöðugt, dag og nótt,“ er haft eftir Moshe Tirosh í frétt AFP en hann var fimm ára þegar hann hafðist við í dýragarðinum en er í dag áttræður.
„Þegar einhver skellti hurðinni uppi greip mig hræðsla um að þeir myndu finna okkur,“ er ennfremur hafy eftir honum í símaviðtali. Hann er kaupsýslumaður á eftirlaunum og á sjö barnabörn. Tirosh flutti til Ísraels 1957 og hefur búið þar síðan. Hann á enn erfitt með að trúa því sem hann upplifði sem barn. „Ég sá lík barna á götunni. Hræðilega hluti... ég man eftir því að ég furðaði mig á því hvers vegna allir vildu drepa okkur. Ég skildi það ekki.“
Einungis tveir af gyðingunum sem höfðust við í lengri eða skemmri tíma í dýragarðinum létu lífið á árum heimsstyrjaldarinnar. Þýskir hermenn, sem staðsettir voru í dýragarðinum, áttuðu sig aldrei á því hvað færi þar fram. „Foreldrar mínir áttu sig á því að það væri alltaf dimmast undir ljósastaur,“ er haft eftir dóttur hjónanna, Teresu Zabinska. Vísar hún þar í pólskt spakmæli þess efnis að best sé í raun að fara huldu höfði fyrir augliti allra.
„Faðir minn vissi að það myndi ekki hvafla að Þjóðverjunum að svo margt fólk gæti verið í felum á stað eins og þessum með opnum gluggum og engum gluggatjöldum,“ segir Zabinska sem nú er 73 ára gömul. Flestir gyðinganna höfðust við í tómum búrum fyrir dýr eða í kjallara íbúðarhússins. Aðrir bjuggu hjá hjónunum og börnum þeirra og þóttust vera ættingjar eða kennarar barnanna. Sumir í klukkustundir eða daga. Aðrir í mánuði og jafnvel ár.
Að staðaldri voru um þrjátíu gyðingar í dýragarðinum. Þegar hætta var talin á ferðum og þýskir hermenn komu of nálægt húsinu spilaði Antonina óperettu á píanó þeirra hjóna. Gyðingarnir flýðu þá í gegnum göngin eða földu sig. Hjónin þorðu ekki að segja ráðskonu sinni frá gestum sínum af ótta við að leyndarmálið yrði opinberað. Antonina sagði síðar í endurminningum sínum 1968 að erfiðast hafi verið að fela fyrir ráðskonunni aukna þörf fyrir matvæli.
„Ég trúi því ekki hversu mikið þau borða. Ég hef aldrei séð nokkuð þessu líkt,“ sagði Antonina í endurminningunum að hún hefði heyrt ráðskonuna muldra. Tirosh var í tvö ár í gettóinu, þar sem hungursneyð greisaði og alls kyns sjúkdómar grasseruðu, áður en hann kom í dýragarðinn. Litlu munaði að hann yrði sendur í útrýmingarbúðir nasista í Treblinka. Foreldrar hans mútuðu vörðum gettósins og tókst í kjölfarið að flýja ásamt honum og systur hans.
Fjölskyldunni var vel tekið í dýragarðinum. Ekki síst af Antoninu. „Hún var stórkostleg. Ég var lítill drengur og var mjög hræddur við allt. En þegar ég sá andlit hennar róaðist ég. Ég man eftir þeirri tilfinningu enn,“ segir Tirosh. Þegar kom að því að fjölskyldan héldi áfram för sinni reyndi Antonina að leyna uppruna þeirra með því meðal annars að lita hár þeirra ljóst. Endurminningar hennar verða endurútgefnar síðar í þessum mánuði.
Þar segir meðal annars frá því að Antonina hafi reynt að safna fé til þess að opna dýragarðinn á nýjan leik eftir að styrjöldinni lauk. Jan var undir lok stríðsins í þýskum stríðsfangabúðum eftir að hafa tekið þátt í uppreisninni í Varsjá árið 1944 gegn þýska hernámsliðinu. Bandaríski rithöfundurinn Diane Ackerman studdist mikið við endurminningarnar þegar hún ritaði bók sína The Zookeeper's Wife árið 2007 sem var kveikjan að kvikmyndinni.
Hjónin Jan og Antonina létust á áttunda áratug síðustu aldar. Húsið þeirra í dýragarðinum er í dag safn þar sem gestir geta meðal annars skoðað göngin sem notuð voru þegar hætta var á ferðum og kjallarann þar sem margir gyðinganna höfðust við. Síðar tók Yad Vashem Holocaust-stofnunin í Ísrael hjónin í raðir þeirra sem hún hefur heiðrað fyrir að hafa bjargað gyðingum á meðan á helför gyðinga stóð á valdatíma þýskra nasista.
„Þau trúðu því að þetta væri það sem væri rétt að gera,“ er haft eftir Teresu dóttur hjónanna. „Faðir minn sagði alltaf að þetta væri það sem almennileg manneskja ætti að gera.