Þúsundir mótmælenda söfnuðust saman í fjölmörgum borgum víða um Bandaríkin til að krefjast þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti myndi birta skattaupplýsingar sínar. Trump hefur hingað til neitað að verða við þessari bón.
Mótmælin eru haldin í dag þar sem almennt er 15. apríl sá dagur sem íbúar Bandaríkjanna þurfa að skila skattframtali sínu. Þar sem dagurinn er í dag á laugardegi færist sá dagur hins vegar yfir á 18. apríl.
AFP fréttaveitan hefur eftir einum af skipuleggjendum mótmælanna að þangað til Trump sýni skattagögnin þá geti kjósendur ekki vitað hvort hann sé að fela eitthvað og hvort stefnumótun hans sé byggð upp þannig að hann hagnist.
Í Washington DC söfnuðust meðal annars nokkur þúsund manns fyrir utan þinghúsið til að mótmæla því að Trump hefði ekki birt skattaupplýsingarnar.