Yfirvöld Norður-Kóreu afhjúpuðu það sem virðist vera langdræg kjarnaflaug (e. ICBM) á risastórri hersýningu í höfuðborg landsins, Pyongyang, í dag. Þetta er mat sérfræðinga.
Keyrðar voru næstum sextíu eldflaugar í gegnum Kim Il-Sung-torgið svonefnda, til að fagna þess að í dag eru liðin 105 ár frá fæðingu stofnanda ríkisins og afa leiðtogans Kim Jong-un.
Eldflaugarnar og ýmis önnur vopn voru sýnd í röð eftir stærð en það voru fjórar risavaxnar og grænar eldflaugar, sem keyrðar voru á sérhönnuðum vögnum undir lok sýningarinnar, sem vöktu athygli hernaðarsérfræðinga.
Spenna hefur farið vaxandi á ný á Kóreuskaga að undanförnu, á sama tíma og þetta einangraða ríki reynir í sífellu að koma sér upp frekari vopnaforða.
Helsta markmið yfirvalda í þeim efnum er svokölluð langdræg kjarnaflaug, en það er eldflaug sem myndi geta flogið með kjarnorkusprengju austur yfir Kyrrahafið og á meginland Bandaríkjanna. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur hins vegar heitið því að það muni ekki gerast.