Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa varað Bandaríkin við því að taka ögrandi ákvarðanir á svæðinu og segja ríkið tilbúið til þess að svara með kjarnorkuvopnaárás.
Þetta kom fram þegar því var fagnað að 105 ár eru liðin frá fæðingu fyrrverandi forseta landsins, Kim Il-sung. Fjölmenn skrúðganga var farin í höfuðborg landsins, Pyongyang, og er mjög rætt um að forseti Norður-Kóreu, Kim Jong-un, fyrirskipi nýjar kjarnorkuvopnatilraunir.
Meðal þess sem var sýnt á hátíð dagsins eru langdræg flugskeyti sem ná á milli heimsálfa.
„Við erum reiðubúnir til þess að svara öllum hernaði með hernaði,“ segir Choe Ryong-hae, sem er talinn vera næstráðandi í landinu. „Við erum tilbúnir til þess að svara með kjarnorkuvopnaárás að okkar hætti ef kjarnorkuvopnum verður beitt gegn okkur,“ sagði hann þegar hann ávarpaði landsmenn í dag.