Heyrði bara grát og óp alls staðar

„Ég vissi ekki hvað væri að gerast. Það eina sem ég heyrði var fólk grátandi og æpandi,“ segir Maysa al-Aswad sem beið eftir því að vera flutt á brott frá Kafraya. „Það eina sem ég hugsaði var hvernig við lifðum naumlega af undanfarin ár og síðan dóum við næstum því þegar við sluppum loksins burtu.“

Maysa al-Aswad er þrítug og hún sat í rútu á bílastæði þegar sjálfsvígsárás var gerð á bílalestina sem beið þess að leggja af stað. Hún var með sex mánaða gamlan son sinn, Hadi, í fanginu og tíu ára gömul dóttir hennar, Narjis, sat við hlið hennar.  „Þegar sprengjan sprakk tók ég utan um þau og svo duttum við í gólfið,“ segir Aswad í samtali við AFP fréttastofuna í Aleppo.

Yfir fimm þúsund bæjarbúar yfirgáfu Fuaa og Kafraya á föstudag og á þriðja þúsund bæina Madaya og Zabadani í nágrenni Damaskus sama dag. Árásin var gerð á bílastæði skammt frá fyrrnefndu bæjunum þar sem fólkið hafði beðið eftir því að komast á brott en þar hafði fólkið beðið í sólarhring. 

Tæplega 70 börn voru meðal þeirra 126 sem létust í sjálfsvígsárásinni í gær. Að minnsta kosti 109 þeirra sem létust voru bæjarbúar, samkvæmt upplýsingum frá mannúðarsamtökum sem fylgjast með gangi mála í Sýrlandi. Aðrir sem létust voru hjálparstarfsmenn og uppreisnarmenn sem gættu bílalestarinnar.

Fréttamaður AFP sem kom á vettvang segir að líkamshlutar og eigur bæjarbúa, svo sem fatnaður, diskar og húsbúnaður, hafi enn legið eins og hráviði um allt í dag, sólarhring eftir árásina. 

Enginn hefur lýst ábyrgð á bílsprengjunni þrátt fyrir að stjórnvöld segi hryðjuverkamenn standa á bak við hana. En það hugtak notar ríkisstjórnin um alla þá sem eru henni andsnúnir. Stærsti uppreisnarhópurinn á svæðinu, Ahrar al-Sham, neitar því að hafa komið að árásinni en ekki liggja nánari upplýsingar um hversu margir hafi særst annað en að þeir skipti hundruðum. 

Yfirmaður mannúðar- og neyðarhjálpar hjá Sameinuðu þjóðunum, Stephen O'Brien, fordæmir árásina og segir að þeir sem standi á bak við svo hryllilega og huglausa árás sýni mannslífinu blygðunarlausa vanvirðingu. Frans páfi er einn þeirra sem hafa tjáð sig um árásina en hann hvatti til þess við páskamessu í Róm í dag að endir verði bundinn á stríðið í Sýrlandi líkt og hann hefur ítrekað gert við messur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert