Misheppnuð eldflaugatilraun Norður-Kóreu

Í dag fór fram stór sýning í höfuðborg Norður-Kóreu á …
Í dag fór fram stór sýning í höfuðborg Norður-Kóreu á hernaðarbúnaði landsins í tilefni af afmæli stofnanda ríkisins. AFP

Yfirvöld í Bandaríkjunum og Suður-Kóreu segja að eldflaugatilraun Norður-Kóreu sem gerð var í kvöld hafi mistekist. Eldflaug sem nota átti sprakk nánast samstundis og hún átti að fara á loft. Tilraunin var gerð nokkrum klukkustundum áður en Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kemur í heimsókn til Suður-Kóreu.

Eldflaugin var send á loft frá borginni Sinpo á austurströnd Norður-Kóreu, en þar er einnig kafbátahöfn þar sem Norður-Kóreumenn hafa gert tilraunir með eldflaugar sem eru sendar á loft frá kafbátum.

Fyrr í mánuðinum gerðu Norður-Kóreumenn aðra eldflaugatilraun sem einnig mistókst. Fór eldflaugin þá fljótlega í hafið eftir að hún fór á loft. Var sú tilraun gerð skömmu eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, átti fyrsta fund sinn með forseta Kína, Xi Jinping.

Síðan núverandi leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-Il, tók við völdum árið 2011 hafa verið gerðar þrjár tilraunir með kjarnavopn og fjöldi eldflaugaskota.

Í dag var því fagnað að stofnandi Norður-Kóreu og afi Jong-Il, Kim Il-sung, fæddist fyrir 105 árum síðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert