Þriggja mánaða gamalt barn var boðað í viðtal í sendiráði Bandaríkjanna í London nýverið eftir að afi barnsins hafði óvart merkt við að barnið væri hryðjuverkamaður þegar hann var að fylla út ESTA-ferðaheimild fyrir barnabarnið.
Afinn, verksmiðjueigandinn Paul Kenyon, sem er 62 ára gamall, hafði boðið fjölskyldu sinni til Flórída þar sem ætlunin var að dvelja í húsi sem þau eiga í Orlando. Vegna mistakanna sem Kenyon gerði var umsókn Harvey Kenyon-Cairns, þriggja mánaða, hafnað og hann beðinn um að mæta í viðtal í sendiráði Bandaríkjanna í London.
Kenyon fór því ásamt dóttur sinni og móður Harvey litla, Faye, frá heimili þeirra í Poynton, Cheshire, í sendiráð Bandaríkjanna í London þremur dögum fyrir áætlaða brottför til Bandaríkjanna. Alls rúmlega þriggja tíma akstur. En því miður tókst ekki að afgreiða vegabréfsáritun litla drengsins í tíma, segir í frétt Telegraph.
Í viðtali við blaðið segir Kenyon að mistökin hafi kostað hann þrjú þúsund pund, sem svarar til 420 þúsund króna, aukalega. Hann þurfti að kaupa nýja flugmiða fyrir dóttur sína, mann hennar og litla drenginn þeirra en hann sjálfur, eiginkona hans og eldra barnabarn gátu hins vegar farið á tilætluðum tíma þar sem engin mistök höfðu átt sér stað við að fylla út ESTA-ferðaheimild þeirra.
„Ég var búinn að fylla út fyrstu fimm eyðublöðin rétt en þetta tók sinn tíma. Ég hafði ekki hugmynd um að ég hafði gert mistök við eyðublað barnsins fyrr en Harvey var synjað um að ferðast til Bandaríkjanna, segir afinn. Ég ætlaði ekki að trúa því að þeir gætu ekki séð að um ósvikin mistök hafi verið að ræða og að þriggja mánaða gamalt barn gæti ekki valdið neinum skaða.“
Hann bætir við að ekki hafi dregið úr undrun hans þegar þriggja mánaða gamalt barn var boðað í viðtal í sendiráðið. Ekki hafi verið hægt að senda drenginn án fylgdar í viðtalið þar sem hann er ekki einu sinni farinn að tala.
Paul Kenyon segir að hann efist um að þeir sem séu hryðjuverkamenn haki við já þegar spurt er hvort þeir eru hryðjuverkamenn. En afinn var stoltur af dóttursyninum í viðtalinu enda var drengurinn til fyrirmyndar og lét ekki einu sinni í sér heyra, segir í frétt Telegraph.
Afinn viðurkennir í samtali við Telegraph að hann hafi íhugað að klæða drenginn í appelsínugulan samfesting fyrir viðtalið en hætt við. Því ekki væri hægt að treysta á skopskyn starfsmanna í sendiráði Bandaríkjanna.