Ógnandi hegðun Norður-Kóreu getur ekki haldið áfram en það er samhljóma álit nokkurra ríkja, þar á meðal Kína. Þetta kom fram í máli H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjastjórnar í dag.
„Ég held að það sé samhljóma álit, þar með talið hjá Kína, að þetta geti ekki haldið svona áfram,“ sagði McMaster eftir misheppnaða eldflaugatilraun Norður-Kóreu sem gerð var í gærkvöldi.
Hann bætti því við að Kínverjar hefðu nú áhyggjur af hegðun nágranna sinna á Kóreuskaga. Hann sagði ennfremur að Donald Trump Bandaríkjaforseti myndi ekki leyfa stjórnvöldum í Pyongyang að ógna Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra.
Hann bætti því við að þetta væri stórt vandamál sem þyrfti að taka á. „Það er kominn tími til að gera hvað sem við getum til að reyna að leysa þetta mál á friðsamlegan hátt.“