Mikill meirihluti þeirra Tyrkja sem búsettir eru í Evrópu greiddu atkvæði með breytingu á stjórnarskrá Tyrklands. Þetta kemur fram á vef danska ríkisútvarpsins DR. Meirihluti íbúa í þremur stærstu borgum Tyrklands Ankara, Istanbúl og Izmir hafnaði hins vegar stjórnarskrárbreytingunni.
51,4% kjósenda samþykktu tillöguna, en 48,6% höfnuðu henni. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti sagði úrslit kosninganna vera söguleg, en stjórnarskrárbreytingin eykur völd forsetans til muna frá og með árinu 2019 þegar breytingin á að öðlast gildi. Andstæðingar tillögunnar og stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins véfengja hins vegar úrslitin og krefjast endurtalningar.
Um 5% þeirra sem voru á kjörskrá búa utan Tyrklands, eða um 2,9 milljónir Tyrkja. Um helmingur þeirra býr í Þýskalandi og þar greiddu 63% atkvæði með stjórnarskrárbreytingunni. Í Austurríki sögðu um 73,5% kjósenda já og rúmlega 75% í Belgíu og 71% í Hollandi. Helst voru það þeir Tyrkir sem eru búsettir í Sviss sem vildu halda óbreyttu ástandi, en þar greiddu aðeins 38 prósent atkvæði með breytingunni.
Tyrknesk stjórnvöld sóttu það hart að fá að kynna stjórnarskrárbreytinguna fyrir Tyrkjum í Evrópu fyrr á þessu ári, en var synjað um það af yfirvöldum í Þýskalandi og Hollandi. Erdogan stimplaði ráðamenn þar í landi í kjölfarið nasista.
Angela Merkel Þýskalandskanslari hvatti Erdogan, er úrslitin lágu fyrir, til að sýna „virðingu í samræðum“ við landsmenn sína.