Þolinmæðin í garð N-Kóreu að bresta

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, og Hwang Kyo-Ahn, starfandi forseti Suður-Kóreu. …
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, og Hwang Kyo-Ahn, starfandi forseti Suður-Kóreu. Pence er í heimókn í Suður-Kóreu. AFP

Þolinmæði Bandaríkjanna í garð Norður-Kóreu er að bresta. Þetta sagði Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sem nú er í heimsókn í Suður-Kóreu. Spennan í samskiptum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu hefur farið stigvaxandi undanfarið og Pence lét orðin falla í heimsókn sinni á hlutlausu svæði sem skilur að Norður og Suður-Kóreu.

Pence kom til Kóreu í gær, sama dag og Norður-Kórea gerði mislukkaða til að senda flugskeyti á loft og sagði Pence tilraunina ekkert annað en ögrun við Bandaríkin. 

Sú stefna sem fyrri Bandaríkjastjórnir hefðu beitt, að sýna kjarna- og flugskeytatilraunum Norður-Kóreu þolinmæði gilti ekki lengur, að því er BBC hefur eftir Pence. „Við erum 100% á ykkar bandi,“ sagði Pence við Hwang Kyo-ahn, starfandi forseta Suður-Kóreu.

Hwang lofaði við það tækifæri þróun hins umdeilda flugskeytavarnarkerfis sem Bandaríkin eru nú að þróa til að verjast ógninni frá Norður-Kóreu.

Þá sagðist Pence vonsvikin yfir að kínversk stjórnvöld hefðu gripið til hefndaraðgerða gegn Suður-Kóreu vegna þróunar kerfisins.

Hann sagði þó fyrr um daginn að Bandaríkin héldu enn öllum möguleikum opnum á að leysa deiluna við Norður-Kóreu og að þau vilji finna slíka lausn með samningaviðræðum. Skilaboð bandarískra stjórnvalda væru að sóst sé eftir friði, en að Bandaríkin hafi alltaf nýtt sér afl sitt til að leita friðar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert