Fundu byssur og efni til sprengjugerðar

Lögregla framan við heimili annars mannanna, sem handteknir voru í …
Lögregla framan við heimili annars mannanna, sem handteknir voru í dag vegna gruns um að þeir væru að undirbúa hryðjuverkaárás. Byssur og efni til sprengjugerðar fannst í íbúðinni. AFP

Franska lögreglan fann byssur og útbúnað til sprengjugerðar er hún handtók í dag tvo menn sem eru grunaðir um að hafa verið að undirbúa hryðjuverkaárás í Frakklandi í aðdraganda forsetakosninganna.

Munirnir fundust við húsleit sem lögregla gerði í Marseille í Suður-Frakklandi eftir að mennirnir tveir, Frakkar á þrítugsaldri sem snúist hafa til öfgatrúar, voru hnepptir í varðhald. Hefur AFP-fréttastofan þetta eftir heimildamanni sem krafðist nafnleyndar.

Matthias Fekl, innanríkisráðherra Frakklands, sagði að árásina hefði átt að gera á „næstu dögum“, en fyrri umferð forsetakosninga í landinu fer fram á sunnudag. 

Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar, óháði frambjóðandinn Emmanuel Macron og Francois Fillon, frambjóðandi franska Repúblikanaflokksins, staðfesta öll að yfirvöld hafi greint þeim frá mögulegri árás.

Myndum af mönnunum tveimur, sem handteknir voru í dag, var dreift til öryggisvarða sem gæta forsetaframbjóðendanna fyrir helgi. „Öryggissveit mín fékk myndirnar á fimmtudag,“ sagði Le Pen og fulltrúi Fillon sagði hann hafa verið varaðan við hættunni á föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert