Myndi styrkja mjög stöðu May

AFP

„Þessi yf­ir­lýs­ing kem­ur flest­um ef ekki öll­um á óvart enda hef­ur May margsagt að hún ætli ekki að boða til kosn­inga og hef­ur ekki þurft þess því hún hef­ur haft meiri­hluta í þing­inu,“ seg­ir Bald­ur Þór­halls­son, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Íslands, í sam­tali við mbl.is vegna yf­ir­lýs­ing­ar Th­eresu May, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, í morg­un um að hún hygg­ist boða til þing­kosn­inga í land­inu 8. júní í sum­ar.

Frétt mbl.is: May boðar til þing­kosn­inga

Bald­ur seg­ir tvennt spila þarna einkum inn í að hans mati: „Fyr­ir það fyrsta mikið for­skot Íhalds­flokks­ins sam­kvæmt skoðana­könn­un­um á Verka­manna­flokk­inn. Verka­manna­flokk­ur­inn er ein­fald­lega í sár­um und­ir Jeremy Cor­byn, leiðtoga flokks­ins. Þar er hver hönd­in upp á móti ann­arri og brugguð laun­ráð gegn hon­um. Fari kosn­ing­arn­ar eins og kann­an­ir hafa verið að gefa til kynna myndi Íhalds­flokk­ur­inn vinna stór­sig­ur vegna kosn­inga­kerf­is­ins. Flokk­ur­inn myndi fá mik­inn meiri­hluta full­trúa í þing­inu.“

Hitt sem skipti veru­lega miklu máli seg­ir Bald­ur að sé sú staðreynd að Íhalds­flokk­ur­inn sé klof­inn þegar komi að því með hvaða hætti eigi að standa að út­göngu Bret­lands úr Evr­ópu­sam­band­inu. „Fólk hef­ur sæst á það að Bret­ar séu á leið úr Evr­ópu­sam­band­inu og það eigi að vera stefn­an. Um það er nokkuð góð sátt inn­an Íhalds­flokks­ins. En það eru mjög skipt­ar skoðanir um það hvers kon­ar samn­ing­ur væri best­ur fyr­ir Bret­land.“

Býst við að þrýst verði á Cor­byn að segja af sér

Fyr­ir vikið muni May eiga erfitt með að koma samn­ingi við Evr­ópu­sam­bandið um út­göngu úr því í gegn­um breska þingið á meðan hún hafi aðeins naum­an meiri­hluta á bak við sig eins og staðan sé í dag og flokk­ur­inn klof­inn um aðferðafræðina. Til þess þurfi hún að vera í sterk­ari stöðu og geta gert ráð fyr­ir því að hafa ekki stuðning ein­hverra þing­manna íhalds­manna. Þetta sé eitt­hvað sem skipti veru­lega miklu máli.

Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor.
Bald­ur Þór­halls­son stjórn­mála­fræðipró­fess­or. mbl.is/​Krist­inn

„Vinni May góðan sig­ur í kosn­ing­un­um verður hún þannig í miklu sterk­ari stöðu til þess að koma samn­ingi í gegn­um þingið, samþykkt­um af Íhalds­flokkn­um, held­ur en áður. Hún nýt­ur trausts meiri­hluta kjós­enda. Kann­an­ir sýna það. Ekki síst í sam­an­b­urði við Cor­byn. Það hef­ur kannski helst verið inn­an Íhalds­flokks­ins sem hún hef­ur átt erfitt með að fylkja liði á bak við aðferðafræðina við út­göngu úr Evr­ópu­sam­band­inu.“

Hins veg­ar geti auðvitað margt gerst í stjórn­mál­um og ekki hægt að full­yrða ná­kvæm­lega um niður­stöður kosn­inga. „Ég tel hins veg­ar nær úti­lokað að Cor­byn nái að styrkja stöðu Verka­manna­flokks­ins veru­lega frá því sem nú er. Það má bú­ast við því að þrýst­ing­ur auk­ist í aðdrag­anda kosn­ing­anna á að hann hrein­lega stigi til hliðar. Tapi hann síðan kosn­ing­un­um mun hann segja strax af sér. Það er hefð fyr­ir því í bresk­um stjórn­mál­um.“

Sterk­ari staða gagn­vart skosku heima­stjórn­inni

„Ef May vinn­ur þenn­an stór­sig­ur sem skoðanakann­an­ir gefa til kynna mun það líka styrkja hana í viðræðum við skosku heima­stjórn­ina,“ seg­ir Bald­ur. Vís­ar hann þar til fyr­ir­hugaðra samn­inga um út­göngu Bret­lands úr Evr­ópu­sam­band­inu og kröfu Skoska þjóðarflokks­ins um nýtt þjóðar­at­kvæði um sjálf­stæði Skot­lands frá breska kon­ung­dæm­inu. Bend­ir hann einnig á að Íhalds­flokk­ur­inn hafi verið að styrkja stöðu sína á meðal skoskra kjós­enda.

Frétt mbl.is: Verka­manna­flokk­ur­inn styður kosn­ing­ar

„Verka­manna­flokk­ur­inn er á sama tíma al­ger­lega í sár­um í Skotlandi eins og víðast hvar ann­ars staðar,“ seg­ir hann. Það muni styrkja stöðu May þegar kem­ur að þeim sem kallað hafa á sjálf­stæði Skot­lands. Skoski þjóðarflokk­ur­inn hlaut nær öll þing­sæti Skota á breska þing­inu í kosn­ing­un­um 2015 en Bald­ur seg­ist fyr­ir vikið telja að mikið þurfi að ger­ast til þess að flokkn­um tak­ist það á nýj­an leik. Einkum vegna sterk­ari stöðu íhalds­manna.

Hvað varðar fyr­ir­hugaðar viðræður breskra stjórn­valda við Evr­ópu­sam­bandið um úr­sögn Bret­lands úr því seg­ir Bald­ur að sig­ur í þing­kosn­ing­un­um muni ekki skemma fyr­ir May í þeim efn­um þó að það breyti kannski ekki miklu í þeim efn­um. Sig­ur í þing­kosn­ing­un­um skipti aðallega máli heima fyr­ir og þá ekki síst þegar komi að fram­gangi út­göngu Bret­lands úr Evr­ópu­sam­band­inu.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Th­eresa May, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands. AFP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert