„Þessi yfirlýsing kemur flestum ef ekki öllum á óvart enda hefur May margsagt að hún ætli ekki að boða til kosninga og hefur ekki þurft þess því hún hefur haft meirihluta í þinginu,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is vegna yfirlýsingar Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, í morgun um að hún hyggist boða til þingkosninga í landinu 8. júní í sumar.
Frétt mbl.is: May boðar til þingkosninga
Baldur segir tvennt spila þarna einkum inn í að hans mati: „Fyrir það fyrsta mikið forskot Íhaldsflokksins samkvæmt skoðanakönnunum á Verkamannaflokkinn. Verkamannaflokkurinn er einfaldlega í sárum undir Jeremy Corbyn, leiðtoga flokksins. Þar er hver höndin upp á móti annarri og brugguð launráð gegn honum. Fari kosningarnar eins og kannanir hafa verið að gefa til kynna myndi Íhaldsflokkurinn vinna stórsigur vegna kosningakerfisins. Flokkurinn myndi fá mikinn meirihluta fulltrúa í þinginu.“
Hitt sem skipti verulega miklu máli segir Baldur að sé sú staðreynd að Íhaldsflokkurinn sé klofinn þegar komi að því með hvaða hætti eigi að standa að útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. „Fólk hefur sæst á það að Bretar séu á leið úr Evrópusambandinu og það eigi að vera stefnan. Um það er nokkuð góð sátt innan Íhaldsflokksins. En það eru mjög skiptar skoðanir um það hvers konar samningur væri bestur fyrir Bretland.“
Fyrir vikið muni May eiga erfitt með að koma samningi við Evrópusambandið um útgöngu úr því í gegnum breska þingið á meðan hún hafi aðeins nauman meirihluta á bak við sig eins og staðan sé í dag og flokkurinn klofinn um aðferðafræðina. Til þess þurfi hún að vera í sterkari stöðu og geta gert ráð fyrir því að hafa ekki stuðning einhverra þingmanna íhaldsmanna. Þetta sé eitthvað sem skipti verulega miklu máli.
„Vinni May góðan sigur í kosningunum verður hún þannig í miklu sterkari stöðu til þess að koma samningi í gegnum þingið, samþykktum af Íhaldsflokknum, heldur en áður. Hún nýtur trausts meirihluta kjósenda. Kannanir sýna það. Ekki síst í samanburði við Corbyn. Það hefur kannski helst verið innan Íhaldsflokksins sem hún hefur átt erfitt með að fylkja liði á bak við aðferðafræðina við útgöngu úr Evrópusambandinu.“
Hins vegar geti auðvitað margt gerst í stjórnmálum og ekki hægt að fullyrða nákvæmlega um niðurstöður kosninga. „Ég tel hins vegar nær útilokað að Corbyn nái að styrkja stöðu Verkamannaflokksins verulega frá því sem nú er. Það má búast við því að þrýstingur aukist í aðdraganda kosninganna á að hann hreinlega stigi til hliðar. Tapi hann síðan kosningunum mun hann segja strax af sér. Það er hefð fyrir því í breskum stjórnmálum.“
„Ef May vinnur þennan stórsigur sem skoðanakannanir gefa til kynna mun það líka styrkja hana í viðræðum við skosku heimastjórnina,“ segir Baldur. Vísar hann þar til fyrirhugaðra samninga um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og kröfu Skoska þjóðarflokksins um nýtt þjóðaratkvæði um sjálfstæði Skotlands frá breska konungdæminu. Bendir hann einnig á að Íhaldsflokkurinn hafi verið að styrkja stöðu sína á meðal skoskra kjósenda.
Frétt mbl.is: Verkamannaflokkurinn styður kosningar
„Verkamannaflokkurinn er á sama tíma algerlega í sárum í Skotlandi eins og víðast hvar annars staðar,“ segir hann. Það muni styrkja stöðu May þegar kemur að þeim sem kallað hafa á sjálfstæði Skotlands. Skoski þjóðarflokkurinn hlaut nær öll þingsæti Skota á breska þinginu í kosningunum 2015 en Baldur segist fyrir vikið telja að mikið þurfi að gerast til þess að flokknum takist það á nýjan leik. Einkum vegna sterkari stöðu íhaldsmanna.
Hvað varðar fyrirhugaðar viðræður breskra stjórnvalda við Evrópusambandið um úrsögn Bretlands úr því segir Baldur að sigur í þingkosningunum muni ekki skemma fyrir May í þeim efnum þó að það breyti kannski ekki miklu í þeim efnum. Sigur í þingkosningunum skipti aðallega máli heima fyrir og þá ekki síst þegar komi að framgangi útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.