Æstur múgur myrðir „guðlastara“

Daglegt líf í Pakistan. Æstur múgur varð Khan að bana …
Daglegt líf í Pakistan. Æstur múgur varð Khan að bana á fimmtudag en hann var sakaður um guðlast. AFP

Hundruð manna réðust á blaðamennskunemann Mashal Khan á fimmtudag; rifu af honum fötin, börðu hann og skutu, áður en þeir hentu honum fram af annarri hæð byggingarinnar þar sem hann dvaldi nærri Abdul Wali Khan-háskólanum í bænum Mardan í Pakistan.

Khan var þekktur fyrir að viðra frjáslyndar skoðanir sínar, ekki síst á Facebook, og múgurinn sagði hann hafa guðlastað. Tuttugu og tveir hafa verið handteknir í tengslum við morðið á Khan en einn kennara hans, sem varð vitni að aðförinni, sagði einn kollega sinn hafa verið meðal þeirra sem hótuðu að drepa nemann og búta hann niður.

Að sögn Ziaullah Hamdard gerðu samnemendur Khan hróp að honum og öðrum nema að nafni Abdullah. Abdullah flúði inn á baðherbergi en fólkið sparkaði niður dyrnar.

„Þetta gerðist allt á nokkrum sekúndum. Þau brutu niður hurðina, sumir báru kylfur, þeir voru trylltir; allt í einu voru þeir komnir inn, þeir hlustuðu ekki á neinn,“ sagði Hamdard í samtali við Geo TV.

Lögregla kom á vettvang og tókst að koma Abdullah til bjargar. „Hugrekkið brast,“ segir Hamdard um það þegar hann sá blóðið og mannfjöldann. Hann flýtti sér þangað sem kennararnir dvelja en það var of seint. Þar mættu honum um 20 nemar sem sökuðu hann um að fela Khan.

„Þeir sögðu: Þú trúir ekki, þú hefur falið guðlastara. Þeir voru óðir; þeir hlustuðu ekki á mig.“

Tveir mannanna spörkuðu í Hamdard og tóku af honum farsímann. Þá læstu þeir hann inni. Annar kennari kom honum til bjargar og Hamdard var fluttur á brott af lögreglu.

Á þeim tímapunkti var Khan, sem hafði falið sig á herbergi sínu, látinn.

„Mashal var diya (lampi). Þeir hafa slökkt á lampa,“ segir Hamdard. Hann bað foreldra Khan um að fyrirgefa sér fyrir að hafa ekki tekist að vernda son þeirra. Þá hefur hann sagt upp störfum.

Tugir hafa verið teknir af lífi síðustu áratugi vegna ósannaðra …
Tugir hafa verið teknir af lífi síðustu áratugi vegna ósannaðra ásakana um guðlast. AFP

„Finnið þá!"

Grimmdin að baki árásinni, sem var tekin upp á farsíma að hluta, hefur vakið fordæmingu víða. Þá var efnt til mótmæla í fjölda borga um helgina en það tók forsætisráðherrann Nawaz Sharif tvo daga að tjá sig um hinn hryllilega atburð.

Stjórnarandstöðuleiðtoginn Imran Khan, hvers flokkur stjórnar héraðinu þar sem Mardan stendur, hét því í dag að hinum seku yrði refsað.

Morðið fylgir á hæla átaks stjórnvalda gegn guðlasti en í síðasta mánuði hét Sharif því að þeir sem guðlöstuðu á samfélagsmiðlum yrðu sóttir til saka. Þá sagðist innanríkisráðuneytið ætla að banna allar síður sem hýstu guðlast.

„Ríkið sjálft hefur sagt: Guðlastarar felast meðal ykkar, fólksins; finnið þá! Og nú finnur fólkið þá,“ sagði dálkahöfundurinn Cyril Almeida í dagblaðinu Dawn. Sannleikurinn er sá að tugir hafa verið myrtir af æstum múg frá 1990, vegna ósannaðra ásakana um guðlast.

Aðgerðasinnar segja löggjöfina um guðlast úrelta en í dag sé hún jafnvel notuð til að koma fram persónulegum hefndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert