Donald Trump Bandaríkjaforseti hringdi í gær í Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta og óskaði honum til hamingju með úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar, sem haldin var í landinu á sunnudag.
Trump þakkaði Erdogan einnig stuðning hans við loftárásir Bandaríkjahers á herstöð sýrlenska stjórnarhersins 7. apríl.
Stjórnarskrárbreytingar sem Erdogan lagði til og sem auka völd forsetaembættisins verulega fengu nauman meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslunni á sunnudag og voru 51,4% kjósenda samþykk breytingunni, en 48,6% sögðu nei.
Undirbúningi og framkvæmd kosninganna hefur víða verið mótmælt og hyggjast andstæðingar Erdogans kæra niðurstöðuna og hafa krafist endurtalningar. Erdogan hefur hins vegar alfarið hafnað þeirri gagnrýni Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (OSCE), sem fylgdist með framkvæmd kosninganna, að kosningabaráttan hefði farið fram á „ójöfnum leikvelli“.
Í yfirlýsingu sem send var frá Hvíta húsinu í gær sagði að Trump hefði rætt við Tyrklandsforseta um viðbrögð við notkun Sýrlandsstjórnar á efnavopnum.
Eru forsetarnir tveir sagðir hafa verið sammála um „mikilvægi þess að Bashar al-Assad Sýrlandsforseti verði látinn svara til saka fyrir efnavopnanotkunina. Þá ræddu þeir einnig um aðgerðir gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams.
Samskipti stjórnvalda í Washington og Ankara hafa verið stirð undanfarið, en eitt helsta bitbeinið hefur verið stuðningur Bandaríkjanna við uppreisnarmenn Kúrda í Sýrlandi, sem einnig hafa barist gegn Ríki íslams. Tyrklandsstjórn lítur hins vegar á Verkamannaflokk Kúrda sem hryðjuverkasamtök.
Stjórnir ríkjanna hafa líka átt í deilum varðandi íslamska klerkinn Fethullah Gulen, sem hefur dvalið í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum um árabil. Tyrknesk stjórnvöld telja hann hins vegar standa að baki misheppnaðri uppreisnartilraun í landinu síðasta sumar og vilja fá hann framseldan.