Þegar yfirvöld í Norður-Kóreu héldu um helgina upp á það að 105 ár eru frá fæðingu Kim Il Sung, stofnanda ríkisins, var boðið upp á tónlistarsýningu sem endaði með myndbandi sem sýndi flugskeytaárás á Bandaríkin.
Myndbandsýningin vakti mikinn fögnuð hjá áhorfendum og fékk bros að launum frá Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu sem jafnframt er barnabarn stofnanda ríkisins.
Reuters-fréttastofan segir norðurkóreska ríkissjónvarpið hafa sýnt frá hátíðarhöldunum á sunnudag, en daginn áður hafði verið boðið til mikillar hersýningar í höfuðborginni Pyongyang.
Tónleikunum á sunnudag lauk með myndskeiðum af flugskeytatilraunum norður-kóreska hersins. Búið var hins vegar að bæta fleiri flugskeytum inn á myndskeiðið og voru þau sýnd skjótast yfir Kyrrahafið og springa síðan sem risastórir eldhnettir á bandarískri grundu.
Myndbandinu lauk með mynd af bandaríska fánanum í logum og röð af hvítum krossum í kirkjugarði.
„Þegar sýningunni lauk fögnuðu listamennirnir og þátttakendur í hersýningunni með miklum húrrahrópum,“ sagði í umfjöllun KCNA ríkisfréttastofunnar um málið.
Yfirvöld í Norður-Kóreu heita því reglulega að leggja Bandaríkin í eyði og í kjölfar þeirra auknu spennu sem nú er í samskiptum ríkjanna hafa menn ekki verið sparir á stóru orðin. Hefur Norður-Kórea þannig hótað kjarnorkustríði grípi Bandaríkin til hernaðaraðgerða gegn þeim.