Forsetaframbjóðendurnir Marine Le Pen og François Fillon, forsetaframbjóðandi franskra hægrimanna, hyggjast fresta síðustu kosningafundum sínum sem áttu að vera á morgun vegna árásarinnar á Champs Elysees-breiðgötunni í París í kvöld. Í henni lést einn lögreglumaður og tveir særðust auk árásarmannsins sem var felldur. Þetta kemur fram á AFP.
Árásarmaðurinn sem hefur ekki verið nafngreindur í fjölmiðlum var á lista lögreglunnar yfir hugsanlega hryðjuverkamenn. Maðurinn hafði gefið út hatursfull ummæli og meðal annars sagst vilja myrða lögreglumenn.
Fyrr í kvöld gerði lögreglan húsleit á heimili mannsins sem er í úthverfi Parísar.
Árásarmaðurinn er sagður hafa komið akandi á Champs Elysees-breiðgötuna og farið út úr bílnum og skotið með sjálfvirkri byssu á bifreið lögreglu og skotið á einn lögregluþjón sem lést samstundis. Eftir það lagði hann á flótta og skaut á fleiri lögregluþjóna áður en lögreglan felldi hann. Þetta átti sér stað um kl. 19 í kvöld.
Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni og segir einn liðsmann sinn hafa gert hana. Fréttastofa CNN greinir frá þessu.
ISIS claims an Islamic State "fighter" carried out attack on Champs-Elysees in Paris, their media wing Amaq says https://t.co/CSeqDgDbQz pic.twitter.com/uJB8G7tcuS
— CNN Breaking News (@cnnbrk) April 20, 2017
Skothvellir heyrðust nálægt versluninni Marks & Spencer á breiðstrætinu sem er vinsæll ferðamannastaður. Mikil hræðsla greip um sig og þusti fólk um svæðið.
Rannsókn er þegar hafin á atvikinu. Champs Elysees-breiðgatan er enn lokuð og er mikill viðbúnaður á svæðinu.