Fengi tæpan helming atkvæða

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins. AFP

Breski Íhaldsflokkurinn hefur 48% fylgi samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar fyrirtækisins YouGov en boðað hefur verið til þingkosninga í Bretlandi 8. júní. Fylgi flokksins var 44% í síðustu könnun samkvæmt frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph. Könnunin er sú fyrsta sem fyrirtækið gerir eftir að fyrir lá að kosningar færu fram í sumar.

Fylgi Íhaldsflokksins er tvisvar sinnum meira en fylgi Verkamannaflokkins, sem er með næstmest fylgi, en fylgi síðarnefnda flokksins mælist 24%. Frjálslyndir demókratar eru þriðji stærsti flokkurinn með 12% og Breski sjálfstæðisflokkurinn (UKIP) mælist með 7% en var áður 10%.

Fram kemur í fréttinni að svo virðist sem Íhaldsflokkurinn sé að taka fylgi frá Breska sjálfstæðisflokknum en helsta stefnumál þess síðarnefnda er að Bretland gangi úr Evrópusambandinu sem er nú helsta stefnumál íhaldsmanna eftir þjóðaratkvæðið síðasta sumar þar sem meirihluti breskra kjósenda samþykkti að segja skilið við sambandið.

Önnur skoðanakönnun fyrirtækisins ComRes bendir til þess að Íhaldsflokkurinn sé með 46% fylgi og Verkamannaflokkurinn 25%. Stjórnmálaskýrendur gera ráð fyrir að Íhaldsflokkurinn vinni stórsigur í kosningunum á sama tíma og Verkamannaflokkurinn tapi miklu fylgi frá síðustu kosningum þegar flokkurinn hlaut 30% fylgi. Þá var fylgi Íhaldsflokksins 37%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert