Lögreglumaður skotinn til bana

Skotið var á tvo lögreglumenn í París.
Skotið var á tvo lögreglumenn í París. AFP

Einn lögreglumaður lést og annar er særður eftir skotárás í miðborg Parísar í kvöld. Árásin átti sér stað á Champs Elysees sem er fjölfarin verslunargata og eftirsóttur ferðamannastaður í borginni. Svæðinu var strax lokað. 

Árásarmaðurinn var felldur eftir skothríðina, að sögn innanríkisráðherra Frakklands. Mikill viðbúnaður er á svæðinu bæði lögreglu og bráðaliða. 

Sky-fréttastofan fullyrðir að árásarmaðurinn hafi verið í bíl sem var stopp á rauðu ljósi þegar hann skaut á lögreglumennina tvo með fyrrgreindum afleiðingum.  

Í aðdraganda forsetakosninganna hefur verið mikill viðbúnaður lögreglu og hermanna í landinu einkum á ferðamannastöðum eins og Champs Elysees, ríkisstjórnarbyggingum, við trúfélög og á öðrum stöðum sem gætu mögulega verið skotmörk hryðjuverkamanna.

Frá árinu 2015 hefur verið í gildi hæsta viðbúnaðarstig í landinu vegna mögulegra hryðjuverka í landinu. Frá því hafa yfir 230 manns látið lífið í hryðjuverkaárásum í landinu. 

Fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi er á sunnudaginn. Fyrir tveimur dögum handtók lögreglan tvo menn grunaðir um að hafa verið að und­ir­búa hryðju­verka­árás í aðdrag­anda for­seta­kosn­ing­anna. Franska lög­regl­an fann byss­ur og út­búnað til sprengju­gerðar.

Fréttin verður uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert