Enginn vafi á að herinn beitti efnavopnum

Avigdor Lieberman, varnarmálaráðherra Ísrael, og James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, á …
Avigdor Lieberman, varnarmálaráðherra Ísrael, og James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í Tel Aviv. AFP

Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir engan vafa leika á að Sýrlandsstjórn hafi haldið eftir hluta efnavopna sinna. Mattis lét þessi orð falla í heimsókn til Ísrael í dag og varaði hann stjórn Bashar al-Assads Sýrlandsforseta við að beita þeim.

Hann neitaði hins vegar að tjá sig um það hversu mikið magn efnavopna bandarísk stjórnvöld teldu Sýrlandsstjórn nú eiga.

Bandaríkjaher gerði loftárás á eina af herstöðvum sýrlenska stjórnarhersins nú fyrr í mánuðinum eftir að efnavopnaárás var gerð á bæinn Khan Sheikhun, sem er á yfirráðasvæði uppreisnarmanna, og sem talið er að Sýrlandsher hafi staðið að.

„Staðan er sú að alþjóðasamfélagið efast ekki um að Sýrlandsstjórn hafi haldið eftir efnavopnum sem brýtur í bága við samþykkt hennar og yfirlýsingar um að þeim hafi öllum verið eytt,“ sagði Mattis.

„Það er brot á samþykkt Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og við verðum að taka á því á diplómatískan hátt og það væri óráðlegt af þeim að reyna þetta aftur. Við gerðum þeim það alveg ljóst með árásinni.“

Ísraelsstjórn telur sig hafa sannanir fyrir því að stjórn Assads eigi enn „nokkur tonn“ efnavopna í sínum fórum.

Assad, sem nýtur stuðnings stjórnvalda í Rússlandi, hefur hins vegar alfarið hafnað ásökunum um að her hans hafi beitt efnavopnum á Khan Sheikhun og segir það „helberan uppspuna“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert