Einn mótmælandi var handtekinn fyrir að veita flokksmanni Annars kosts fyrir Þýskaland (AfD), sem er hægrisinnaður þjóðernisflokkur, áverka á andliti. Þúsundir mótmælenda voru saman komnar við hótel í miðborg Köln í dag þar sem flokksþingi AfD fer fram.
Mótmælendur reyndu að hindra flokksmenn í að komast inn í bygginguna og voru með háreysti. Um fjögur þúsund lögreglumenn eru á svæðinu en áætlað er að um 50 þúsund mótmælendur taki þátt í mótmælunum um helgina en flokksþingið hófst í dag og lýkur á morgun.
Flokknum AfD, sem meðal annars leggst gegn núverandi innflytjendastefnu og Evrópusambandinu, hefur vaxið ásmegin undanfarið, líkt og fleiri sambærilegum flokkum í Evrópu.
Um 600 flokksmenn mættu á þingið. Flokkurinn býður fram til kosninga í 11 héruðum af 16 í þingkosningum í Þýskalandi í september og freistar þess að ná í fyrsta skipti manni á þing.