Litlu munar á Le Pen og Macron

Franskur maður virðir fyrir sér veggspjöld Marine Le Pen og …
Franskur maður virðir fyrir sér veggspjöld Marine Le Pen og Emmanuels Macron en þau leiða í skoðanakönnunum fyrir fyrri umferð forsetakosningana sem fer fram á morgun. AFP

Augu heimsins eru nú á frönsku forsetakosningunum, en fyrri umferð kosninganna fer fram á morgun. Áhuginn stafar einkum af þátttöku Marine Le Pen, frambjóðanda frönsku Þjóðfylkingarinnar, en hún skorar hátt í skoðanakönnunum. Þá er það mjög óvanalegt að frambjóðendur rótgrónu flokka landsins, Repúblikana og Sósíalista, séu ekki báðir meðal efstu tveggja í skoðanakönnunum fyrir kosningarnar, og hvað þá hvorugur þeirra.

Le Pen hefur mælt fyrir harðlínustefnu gegn innflytjendum og hryðjuverkum og eftir skotárásina á fimmtudag, þar sem lögregluþjónn var skotinn til bana á Champs Elysees. Kallaði hún til að mynda eftir því að öllum moskum landsins yrði lokað og þeim sem eru undir eftirliti lögreglu, á svokölluðum hryðjuverkalista, yrði vísað tafarlaust úr landi.

Fyrri umferð kosninganna fer fram á morgun.
Fyrri umferð kosninganna fer fram á morgun. AFP

Macron efstur, Le Pen rétt á eftir

Mjög litlu munar á efstu frambjóðendunum fjórum, þeim Emmanuel Macron sem mælist efstur með 24 prósent í meðaltali nokkurra kannana ( Ipsos, Odoxa, Elabe, OpinionWay, Harris, Ifop-Fiducial, BVA og Kantar Sofres) sem gerðar voru fyrir fyrstu umferðina. Macron er sjálfstæður frambjóðandi sem segist hvorki vera til vinstri né hægri, heldur fyrir Frakkland.

Fast á hæla honum fylgir Marine Le Pen með 22,3 prósent og þar á eftir Francois Filon, frambjóðandi Repúblikanaflokksins, með 19,5 prósent. Filon var spáð góðu gengi framan af kosningabaráttunni en spillingarmál tengt launagreiðslum til eiginkonu hans fyrir vinnu sem hún er sökuð um að hafa aldrei innt af hendi skók baráttuna svo illa að einhverjir töldu að hann ætlaði að draga framboð sitt til baka um tíma.

Fjögur efstu: Francois Fillon, frambjóðandi Repúblikana, lengst til vinstri. Marine …
Fjögur efstu: Francois Fillon, frambjóðandi Repúblikana, lengst til vinstri. Marine Le Pen, frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar, við hlið hans. Emmanuel Macron, sjálfstæði frambjóðandinn er hægra megin við miðju og loks Jean-Luc Melenchon frambjóðandi róttækra vinstri manna. AFP

Fjórði er Jean-Luc Mélenchon, frambjóðandi róttækra vinstri manna, og fimmti er flokksbróðir Francois Hollande Frakklandsforseta, Benoit Hamon, frambjóðandi Sósíalistaflokks Frakklands, en flokkurinn er í mikilli kreppu sökum óvinsælda með Hollande en sá mælist einn óvinsælasti forseti í sögu Frakklands. Mælist Hamon með 7,6 prósent.

Ekkert bendir til þess að einhver frambjóðendanna nái yfir 50% atkvæða á morgun sem þýðir að seinni umferð verður haldin á milli tveggja efstu. Stefnir því allt í að seinni umferðin verði haldin 7. maí næstkomandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert