Skutu á allt sem hreyfðist

00:00
00:00

Árás sem taliban­ar stóðu fyr­ir á her­stöð í Af­gan­ist­an í gær er ein sú mann­skæðasta sem af­ganski her­inn hef­ur orðið fyr­ir í átök­um við talib­ana. Ríf­lega 100 af­gansk­ir her­menn lét­ust eða særðust í árás­inni að sögn varn­ar­málaráðuneyt­is­ins þar í landi. Árás­ar­menn­irn­ir voru klædd­ir eins og her­menn.

Árás­in átti sér stað skammt frá borg­inni Maz­ar-e-Sharif, sem er í Balkh-héraðinu í norður­hluta lands­ins. Bar­dag­ar stóðu yfir í nokkr­ar klukku­stund­ir, en vopnaðir víga­menn réðust á her­menn sem höfðu ný­lokið föstu­dags­bæn en einnig var ráðist á her­menn í mötu­neyti hers­ins, að því er fram kem­ur í frétt BBC. 

„Þegar ég gekk út úr mosk­unni hófu þrír menn í her­mannafatnaði að skjóta og einnig var skotið úr her­öku­tæki. Það er ljóst að þeir hafa notið aðstoðar ein­hverra í her­stöðinni, því ann­ars hefðu þeir aldrei kom­ist inn,“ seg­ir Mohammad Hussain, sem er af­gansk­ur hermaður sem særðist í árás­inni. 

Hussain seg­ir enn frem­ur að einn árás­ar­mann­anna hafi verið með vél­byssu ofan á bif­reið og skotið alla sem hann sá. 

Upp­haf­lega var talið að 134 hefðu fallið, en af­ganska varn­ar­málaráðuneytið seg­ir hins veg­ar að rúm­lega 100 hafi lát­ist eða særst. Þá féllu að minnsta kosti 10 liðsmenn talib­ana í árás­inni og einn var hand­samaður. 

Taliban­ar hafa sent frá sér yf­ir­lýs­ingu þar sem þeir lýsa yfir ábyrgð. Þeir segj­ast hafa sent menn í sprengju­vest­um á vett­vang til að sprengja sér leið inn á svæðið. 

Sem fyrr seg­ir voru árás­ar­menn­irn­ir klædd­ir í ein­kenn­is­fatnað af­ganska herliðsins og tókst þeim að aka í gegn­um eft­ir­lits­stöðvar áður en þeir gerðu loks árás, sem renn­ir stoðum und­ir það að árás­ar­menn­irn­ir hafi átt sér vitorðsmenn sem aðstoðuðu þá við að kom­ast inn á svæðið.

Ashraf Ghani, for­seti Af­gan­ist­ans, heim­sótti svæðið í dag og ræddi við særða her­menn. 

Fram kem­ur á vef BBC, að árás­in sýni fram á að taliban­ar geti skipu­lagt og fram­kvæmt flókn­ar árás­ir. Fjór­ir árás­ar­mann­anna eru sagðir hafa þjónað í hern­um í mörg ár og hafi þekkt her­stöðina mjög vel. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert