Baráttan um Frakkland

Samsett mynd sem sýnir þau Emmanuel Macron Marine Le Pen …
Samsett mynd sem sýnir þau Emmanuel Macron Marine Le Pen sem munu takast á í seinni umferð frönsku forsetakosninganna. AFP

Talið er líklegt að miðjumaðurinn og Evrópusinninn Emmanuel Macron muni standa uppi sem sigurvegari fyrri umferðar frönsku þingskosninganna með 23,9% stuðning þegar búið verður að telja öll atkvæði. Marine Le Pen, formaður Þjóðfylkingarinnar, er sögð fá 21,7%. Það er þó ljóst að þau muni mætast aftur í seinni umferð kosninganna sem fer fram 7. maí.

Standi Macron uppi sem sigurvegari í seinni umferðinni þá verður hann yngsti forseti í sögu landsins. 

„Ég vil verða forseti föðurlandsvina gegn óginni sem stafar af þjóðernishyggju,“ sagði hinn 39 ára gamli Macron við stuðningsmenn sína í París í kvöld. 

AFP-fréttaveitan segir að evran hafi hækkað gagnvart Bandaríkjadal og jeni í kjölfar niðurstöðunnar. 

Emmanuel Macron fagnaði vel með stuðningsfólki sínu í kvöld.
Emmanuel Macron fagnaði vel með stuðningsfólki sínu í kvöld. AFP

Macron er fyrrverandi bankastarfsmaður og efnahagsmálaráðherra. Hann segir að kjósendur hafi hafnað hugmyndum og frambjóðendum hefðbundnu stjórnmálaflokkanna í Frakklandi.

Þetta er í fyrsta sinn í sex áratugi sem hvorki frambjóðendur úr flokki sósíalista né íhaldsmanna komast í aðra umferð forsetakosninganna, sem þykir marka mikil tímamót í franskri stjórnmálasögu.

„Verkefnið er að brjóta algerleg upp kerfið sem hefur ekki getað fundið lausnir á þeim vandamálum sem þjóðin hefur glímt við í rúma þrjá áratugi,“ sagði Macron við stuðningsmenn sína í kvöld. En hann er einnig fari að huga að þingkosningunum sem fara fram í júní. 

Á tímum mikillar sundrungar í Frakklandi í ljósi bágs efnahagsástands og þeirra hryðjuverkaárása sem hafa dunið á landið á undanförnum tveimur árum, þá hefur framboð Macron vakið töluverða athygli. Hann hefur aldrei boðið sig fram með þessum hætti áður og hann stofnaði miðjuflokkinn, Áfram gakk, aðeins fyrir 12 mánuðum. Hann mun mæta í seinni umferðina sem sá frambjóðandi sem þykir líklegri til að ná alla leið. 

Samkvæmt nýjum skoðanakönnunum sem voru birtar í kvöld, þá nýtur Macron mun meiri stuðnings heldur en Le Pen, sem hefur harðnað í andstöðu sinni gagnvart innflytjendum og Evrópu.

Marine Le Pen fagnaði einnig með sínum stuðningsmönnum eftir að …
Marine Le Pen fagnaði einnig með sínum stuðningsmönnum eftir að niðurstöðurnar lágu fyrir. AFP

Le Pen fetar í fótspor föður síns, Jean-Marie Le Pen, sem komst í seinni umferð frönsku forsetakosninganna árið 2002, en það olli miklum pólitískum skjálfta í Frakklandi. Hann beið að lokum mikinn ósigur þegar hefðbundnu stjórnmálaflokkarnir stóðu saman gegn honum. 

Þrátt fyrir að kannanir bendi til þess að Macron muni hafa betur, þá var mikil gleði í herbúðum stuðningsmanna Þjóðfylkingarinnar í kvöld, en þeir komu saman í Henin-Beaumont í norðurhluta Frakklands. 

Le Pen segir að í seinni umferðinni verði barist um framtíð Frakklands. Hún vill að Frakkland segi skilið við Evrópusambandið og efli landamæragæslu. Þetta er þvert á framtíðarsýn Macrons.

„Stærsta mál þessara kosninga er stjórnlaus alþjóðavæðing, sem setur samfélag okkar í hættu,“ sagði hún. Hún bætti við að annað hvort haldi menn áfram á þeirri leið að dregið verði úr regluverki, með engum landamærum og án allrar verndar, sem muni leiða til þess að innflytjendur streymi til landsins og að hryðjuverkamenn geti ferðast óhindrað á milli landa, eða þjóðin velji Frakkland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert