Kæra Berkeley fái Ann Coulter ekki að mæta

Ann Coulter er þekkt fyrir að hika ekki við að …
Ann Coulter er þekkt fyrir að hika ekki við að deila umdeildum skoðunum sínum með umheiminum. Ljósmynd/Gage Skidmore

Nemendur við Berkeley-háskóla í Kaliforníu í Bandaríkjunum, sem buðu Ann Coulter, hægrisinnuðum samfélagsrýni og rithöfundi, að flytja erindi á háskólasvæðinu, hóta nú að kæra háskólann ef skólayfirvöld finna ekki viðeigandi tíma og vettvang fyrir hana til að halda erindið.

Coulter er þekkt fyrir að hika ekki við að deila umdeildum skoðunum sínum. Hefur hún ratað nokkrum sinnum í fjölmiðla hér á landi, t.d. fyrir að segja fótboltaáhuga bandarísku þjóðarinnar tákn um hnignun samfélagsins og þegar hún hélt því fram að allar fallegar stúlkur væru hægrisinnaðar.

Frá mótmælunum í Berkeley síðustu helgi.
Frá mótmælunum í Berkeley síðustu helgi. AFP

Harmeet Dhillon, sem fer fyrir repúblikönum í Berkeley-háskóla, segir í bréfi sem hún sendi skólastjórnendum á föstudag að ef henni yrði meinað að flytja erindi á háskólasvæðinu 27. apríl hyggist hún leggja fram kæru á hendur skólanum fyrir að brjóta á stjórnarskrárvörðum rétti nemenda til tjáningarfrelsis.

Frá þessu er greint á vef Fox News en skólayfirvöld greindu repúblikanahópi skólans frá því á þriðjudag að aflýsa þyrfti viðburðinum af öryggisástæðum. Sagði rektor skólans, Nicholas B. Dirks, að ákvörðunin um að fresta viðburðinum byggi á traustum upplýsingum frá lögreglu.

Skólayfirvöld buðu „meira viðeigandi og öruggari“ vettvang undir viðburðinn 2. maí næstkomandi, en Coulter afþakkaði það vegna þess að hún er upptekin þann daginn. Á Twitter-síðu sinni bætti hún því við að það væru engir tímar í Berkeley 2. maí, en í þeirri viku eru allir nemendur skólans í upplestrarfríi.

Hörð átök hafa átt sér stað í Berkeley milli róttækra hægri og vinstri hópa að undanförnu. Síðustu helgi var 21 handtekinn þegar til átaka kom á Donald Trump-mótmælum. Fyrr á árinu var hart deilt um fyrirhugaðan fyrirlestur Milo Yiannopoulus, sem þá var ritstjóri hægriöfga-fréttaveitunnar Breitbart. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert