Útgönguspár benda til þess að miðjumaðurinn Emmanuel Macron og Marine Le Pen hafi borið sigur úr býtum í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna. Þau muni því mætast í seinni umferðinni sem fer fram 7. maí.
Þetta kemur fram á vef BBC, sem vísar í franska ríkissjónvarpið.
Macron er sagður hafa fengið 23,7% atkvæða og Le Pen 21,7%.
Alls buðu 11 sig fram til forseta en helstu andstæðingar Macron og Le Pen voru Francois Fillon, frambjóðandi mið- og hægrimanna, og harðlínuvinstrimaðurinn Jean-Luc Melenchon. Stuðningur við þá báða mældist 19,5% samkvæmt útgönguspám.
Macron er fyrrverandi efnahagsmálaráðherra í stjórn Sósíalistaflokksins. Hann sagði sig úr honum og stofnaði nýjan stjórnmálaflokk í ágúst til að bjóða sig fram til forseta.
Macron var félagi í Sósíalistaflokknum frá 2006 til ársins 2009. Hann hóf störf fyrir Hollande forseta Frakklands árið 2012 en hafði frá 2011 aðstoðað Hollande við framboðið og var skipaður iðnaðar- og efnahagsmálaráðherra í ríkisstjórn Manuels Valls í ágúst 2014. Hann sagði af sér embætti 30. ágúst 2016 og stofnaði um svipað leyti nýjan stjórnálaflokk, miðjuflokkinn En Marce eða Hreyfinguna á íslensku.
Ef Macron verður kjörinn forseti verður hann yngstur til þess að gegna því embætti í Frakklandi.
Faðir Le Pen stofnaði Þjóðfylkinguna fyrir hálfum fimmta áratug. Andstaða við Evrópubandalagið (nú Evrópusambandið, ESB) hefur verið á stefnuskránni frá upphafi, flokkurinn er alfarið á móti Schengen-samstarfi Evrópuríkja um ytri landamæri álfunnar en sá liður í stefnuskrá flokksins sem lengi vakti mesta athygli, og deilur, var andúð á innflytjendum. Frakkland fyrir Frakka, var slagorð flokksins.
Hún hefur lagt áherslu á að milda ímynd sína til að auka líkurnar á því að hún verði forseti. Hún vék föður sínum, Jean-Marie Le Pen, frá sem heiðursformanni Þjóðfylkingarinnar árið 2015 vegna umdeildra yfirlýsinga hans. Hún hefur einnig mildað yfirlýsingar sínar um múslima og íslam.