Mikil öryggisgæsla verður í Frakklandi í dag vegna forsetakosninga sem þar eru hafnar. Um 50 þúsund lögreglumenn og sjö þúsund hermenn verða á varðbergi víðs vegar um landið til að tryggja að allt gangi vel. Þrír dagar eru liðnir síðan lögreglumaður var skotinn til bana í París.
Karim Cheurfi, dæmdur glæpamaður, skaut þá lögreglumann í höfuðið á breiðgötunni Champs Elysees í París. Talið er að hann hafi verið fylgismaður Ríkis íslams.
Ellefu bjóða sig fram til embættis forseta Frakklands en talið er að fjórir frambjóðendur muni berjast um stöðuna, eða íhaldsmaðurinn Francois Fillon, Marine Le Pen leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, frjálslyndi miðjumaðurinn Emmanuel Macron og vinstrisinninn Jean-Luc Mélonchon.
Síðar verður kosið á milli þeirra tveggja frambjóðenda sem fá flest atkvæði í dag, að því er BBC greinir frá.