Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur látið í ljós að hann sé hættur við áform um að reyna að finna fjármagn til að byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Cellyanne Conway, einn helsti ráðgjafi Trumps, segir að fjármögnun veggjarins verði haldið fyrir utan áætlun útgjaldafrumvarps sem verði að ná gegn fyrir föstudag.
Bygging veggjarins, kostuð af Mexíkó, var eitt af helstu kosningaloforðum Trumps í baráttunni um forsetaembættið í fyrra.
Demókratar hafa hótað því að hamla framgöngu frumvarpsins ef í því verði gert ráð fyrir fjármagni til byggingar veggjarins. Með því að halda þessum útgjaldalið fyrir utan frumvarpið verður því e.t.v. hægt að afstýra stjórnarkreppu.
Forsetinn hefur þó lýst því yfir á Twitter að hann sé áfram fylgjandi því að byggja vegginn og að hann verði byggður fyrir rest. Samkvæmt frétt BBC um málið er Trump sagður hafa sagt á lokuðum fundi með fjölmiðlum á hægri vængnum í gær að hugsanlega muni hann hefja fjármögnun verkefnisins síðar á árinu.
Conway staðfesti í samtali við Fox News að vegginn þurfi ekki að fjármagna í þessari viku en hann sé engu að síður áfram „mjög mikilvægt forgangsmál“.
Líkt og vakið hefur athygli voru áform um að byggja vegg eitt af helstu kosningaloforðum Trumps. Viðraði hann meðal annars þá hugmynd að framkvæmdir við byggingu veggjarins skyldu kostaðar af Mexíkó en stjórnvöld þar í landi drógu strax skýra línu um að svo yrði ekki.
Þegar Trump var tekinn við stjórntaumunum í Hvíta húsinu viðraði hann því þær hugmyndir að ef til vill yrðu skattgreiðendur í Bandaríkjunum að standa straum af kostnaði við framkvæmdirnar en í framhaldinu yrði reynt að ná peningunum til baka frá Mexíkóum síðar í ferlinu.
Nú hefur Trump bráðum setið hundrað daga í embætti og mætir hann þar annars konar hörðum vegg, andspyrnu öldungadeildarþingmanna Demókrataflokksins, sem munu ekki styðja þessi áform forsetans en þeir geta hindrað framgöngu frumvarpsins.
„Ekki leyfa fölsku fjölmiðlunum að segja ykkur að ég hafi breytt afstöðu minni til veggjarins. Hann verður byggður til að stöðva flæði fíkniefna, mansal o.s.frv.,“ skrifaði Trump á Twitter í morgun.