Vilja koma vitinu fyrir Kim Jong-un

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rex Tillerson, mun þrýsta á það á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag að alþjóðasamfélagið bregðist harðar við hernaðarbrölti Norður-Kóreu. Á fundinum er búist við því að stjórnvöld í Kína verði hvött til að reyna að hafa áhrif í málinu vegna tengsla sinna við stjórnvöld í Norður-Kóreu. 

Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, er kominn til New York til að sitja fund öryggisráðsins. Bandaríkjamenn hafa ítrekað sagt síðustu daga að þeir muni ekki leyfa því að viðgangast áfram að Norður-Kóreumenn geri tilraunir með kjarnorkuvopn.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að hann vilji helst ná sáttum með viðræðum en segir að ástandið sé erfitt, eldfimt og hættulegt. 

„Það er möguleiki að við endum með því að eiga í mjög, mjög miklum átökum við Norður-Kóreu, algjörlega,“ sagði hann í viðtali við Reuters-fréttastofuna. 

Bandaríkjamenn hafa kallað eftir hertari refsiaðgerðum Sameinuðu þjóðanna gegn Norður-Kóreu en vilja að Kínverjar taki forystu í að reyna að komast að friðsamlegri lausn. 

„Við munum ræða hvaða skref gæti verið nauðsynlegt að taka til að auka þrýsting á stjórnvöld í Norður-Kóreu svo að þeir íhugi stöðu sína,“ sagði Tillerson í viðtali við Fox-fréttastofuna í dag. Tillerson að athugað verði hver staða Kínverja er og hvort þeir séu viljugir að aðstoða við að finna lausn. „Kínverjar hafa sagt okkur að þeir hafi upplýst [stjórnvöld í Norður-Kóreu] um að ef þau geri frekari kjarnorkuvopnatilraunir muni Kínverjar fara í sínar eigin refsiaðgerðir gegn þeim.“

Tillerson segist ekki útiloka að farið verði í beinar viðræður við stjórnvöld í Norður-Kóreu. En áður en að til þess kæmi yrðu stjórnvöld þar í landi að vera tilbúin að láta af tilraunum sínum.

Á sama tíma og Bandaríkjamenn segjast vilja leysa málið með friðsamlegum hætti hafa þeir sent flota sinn að Kóreuskaga. „Við viljum koma vitinu fyrir Kim Jong-Un, ekki knésetja hann,“ segir hershöfðinginn sem fer fyrir flotanum, Harry Harris.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert