Donald Trump Bandaríkjaforseti hringdi í gær í Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, og átti við hann „vinsamlegt spjall“ um öryggismál, stríð þess síðarnefnda gegn eiturlyfjum og bandalag ríkjanna, samkvæmt yfirlýsingu frá Hvíta húsinu, skrifstofu Trumps.
Framganga Dutertes í stríði hans gegn eiturlyfjum hefur kallað á alþjóðlega fordæmingu en það hefur kostað þúsundir lífa og vilja mannréttindasamtök meina að forsetinn hafi mögulega gerst sekur um glæpi gegn mannkyninu samkvæmt frétt AFP.
Meðal þess sem forsetarnir ræddu var staða mála á Kóreuskaganum og ógn sem stafaði af stjórnvöldum í Norður-Kóreu. Þá hafi Trump boðið Duterte í heimsókn til Bandaríkjanna til þess að þeir gætu rætt mikilvægi bandalags ríkjanna.
Fram kemur í fréttinni að ráðamenn í Bandaríkjunum hafi áhyggjur af versnandi tengslum Bandaríkjanna við Filippseyjar þar sem Duterte hefur viljað halla sér meira að Kína. Duterte hefur ítrekað gagnrýnt Bandaríkjamenn harðlega.
Hefur hann meðal annars sagt að Bandaríkin hafi ekki efni á að gagnrýna aðra fyrir mannréttindabrot og þá kallaði hann forvera Trumps í embætti, Barack Obama, hóruunga eftir að Obama hafði gagnrýnt stríð hans gegn eiturlyfjum.