Marine Le Pen á mikið verk fyrir höndum við að bæta ímynd sína og Þjóðfylkingarinnar, nú þegar hún freistar þess að fá kjósendur á sitt band fyrir seinni umferð forsetakosninganna í Frakklandi. Á sama tíma þarf hún að halda einörðum stuðningsmönnum sínum ánægðum.
Áskorunin er stór en í vikunni var Jean-Francois Jalkh, tímabundinn leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, látinn taka pokann sinn vegna ummæla sinna um helförina. Le Pen vék tímabundið úr leiðtogaembættinu vegna forsetaframboðsins.
Til að eiga möguleika á að vinna þarf Le Pen að sannfæra Frakka á borð við ellilífeyrisþegann Jacques Villain og nemann Marina Campana. Bæði studdu þau frambjóðendur sem lutu í lægra haldi í fyrri umferð kosninganna og þurfa nú að gera upp hug sinn varðandi Le Pen og Evrópusinnann og miðjumanninn Emmanuel Macron.
Villain, sem býr í Nice, studdi íhaldsmanninn Francois Fillon á meðan Campana, 19 ára nemi í borginni, kaus harðlínuvinstrimanninn Jean-Luc Melenchon. Hvorugt þeirra hyggst greiða Le Pen atkvæði sitt en bæði vísa í rasískar yfirlýsingar frambjóðandans.
Á göngu eftir strandgötunni í Nice, sem var vettvangur hryðjuverkaárásar í júlí sl., segist Villain munu kjósa Macron af skyldurækni, ekki sannfæringu. „Þjóðfylkingin er ekki venjulegur flokkur,“ segir hann. „Hann vekur upp slæmar minningar af fortíð Frakklands,“ bætir hann við.
Campana sagði í samtali við AFP á fimmtudag: „[Le Pen] hefur sagt hluti um aðflutning fólks og öryggismál sem ég er bara ekki sammála.“
Skoðanir Villain og Campana eru langt í frá algildar, sumir kjósenda sem AFP ræddi við í hinni hægriþenkjandi borg sögðust myndu kjósa Le Pen, en fjöldi geldur varhug við því að veita hinum umdeilda frambjóðanda brautargengi.
Skoðanakannanir benda til þess að Le Pen myndi fá 40% atkvæða gegn 60% Macron ef gengið yrði til kosninga í dag. Einn af hverjum fjórum stuðningsmönnum Fillon og færri en einn af fimm stuðningsmönnum Melenchon hyggjast kjósa Le Pen.
Verkefni Le Pen er snúið; hún þarf að halda kjarnastuðningsmönnum sínum ánægðum á sama tíma og hún þarf að höfða til stærri kjósendahóps. Þetta reyndi hún að gera á kosningafundi í Nice í vikunni, þar sem hún bæði réðst gegn Macron og reyndi að ná til hófsamari kjósenda.
Tónninn var afar ólíkur þeim sem hún sló í ræðum sínum í aðdraganda fyrri umferðarinnar, þar sem hún fór mikinn um innflytjendur, ógnir öfgaíslam og meint tap hins franska auðkennis.
Le Pen vitnaði í Jean Jaures, þekktan leiðtoga sósíalista, og minntist á Charles de Gaulle, ástsælan stofnanda franska lýðveldisins og hetju franskra íhaldsmanna.
„Ég horfi ekki til uppruna ykkar, trúar, kynhneigðar eða litarhafts. Það vekur ekki áhuga minn. Það sem vekur áhuga minn eruð þið,“ sagði hún m.a. í ræðunni. Þá vakti hún máls á ótta kjósenda við fyrirætlanir sínar um að segja Frakkland úr Evrópusambandinu.
„Ég hef heyrt kjósendur tjá ótta sinn,“ sagði hún og bætti við að hún hygðist bjóða leiðtogum ESB til fundar strax í kjölfar kosninganna til að ræða aukið vald til handa stjórnvöldum einstakra aðildarríkja.
Í kjölfarið yrði boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu. „Ekkert verður gert án ykkar, ekkert verður gert á móti ykkur,“ sagði hún en minntist ekkert á tillögur sínar um að segja Frakkland úr evrusamstarfinu og taka aftur upp frankann.
Herve Le Bras, reyndur félagsfræðingur og sérfræðingur um öfgahægrihreyfingar Frakklands, segir íhaldssama kjósendur, sérstaklega þá eldri, gjalda varhug við Þjóðfylkingunni, sem þeir telja of róttæka.
„Þeir eru fylgjandi því að breyta hlutunum en ekki að snúa borðinu á hvolf,“ segir hann. Le Bras segist telja að Le Pen hafi orðið fyrir vonbriðum með 21% fylgið sem hún naut í fyrri umferðinni og hæga sókn Þjóðfylkingarinnar.