Myrtir fyrir að reyna að stela kúm

Hindúar álíta kýr heilagar.
Hindúar álíta kýr heilagar. AFP

Tveir múslimar létust þegar þorpsbúar á Indlandi réðust á þá en mennirnir voru grunaðir um að hafa gert tilraun til að stela kúm. Um er að ræða enn eina árásina vegna skepnanna, sem Hindúar telja heilagar.

Lögregla í ríkinu Assam í norðausturhluta Indlands sagði að dauðsföll Abu Hanifa og Riyazuddin Ali væru rannsökuð sem morð en mennirnir voru barðir til bana. Tveir hafa verið handteknir í tengslum við málið.

„Þeir voru eltir og barðir með bareflum af þorpsbúum sem sögðu að piltarnir hefðu verið að reyna að stela kúm af bithögunum,“ sagði Debaraj Upadhyay, yfirmaður lögreglunnar í Nagaon, í samtali við AFP.

„Þegar okkur tókst að koma þeim á spítala höfðu þeir þegar látist af áverkum sínum,“ bætti hann við.

Á síðustu mánuðum hefur árásum sjálfskipaðra löggæsluhópa fjölgað verulega en þeir hafa m.a. stöðvað flutningabifreiðar til að athuga hvort verið sé að flytja kýr til slátrunar.

Árið 2015 var maður hengdur af nágrönnum sínum vegna orðróms um að hann hefði slátrað kú. Umrætt kjöt reyndist kindakjöt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert