Áhyggjur stuðningsmanna Emmanuel Macron af því að dræm kosningaþátttaka kunni að koma andstæðingi hans, Marine Le Pen, til góða jukust nokkuð í dag eftir að tveir þriðju hlutar fylgismanna vinstrimannsins Jean-Luc Melenchon sögðust myndu sitja heima eða skila auðu.
Könnun meðal stuðningsmanna Melenchon sýndi að 65% hygðust ónýta atkvæði sitt eða sleppa því að fara á kjörstað og aðeins 35% sögðust myndu styðja Macron. Melenchon hlaut 7 milljónir atkvæða í fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi og lenti í fjórða sæti.
Enn sem komið er heldur Macron umtalsverðu forskoti sínu á Le Pen, eða um 19 prósentustigum. Kosningateymi hans hefur hins vegar varað við því að léleg kosningaþátttaka, sérstaklega meðal vinstrimanna, kunni að hafa áhrif á sigurlíkur hans.
Samkvæmt könnunum hyggjast 22-28% Frakka sitja heim á kjördag.
Flestir kjósendur sem hallast til vinstri eru síður en svo hrifnir af afstöðu Le Pen í málefnum innflytjenda og gagnvart Evrópusambandinu en sumir þeirra eiga sömuleiðis erfitt með að kyngja áherslum Macron í efnahagsmálum, þar sem frambjóðandinn þykir fremur frjálslyndur.
Atvinnurekendur, vísindamenn og þekktir einstaklingar hafa hvatt fólk til að fylkja sér að baki Macron, sem hefur sjálfur sagst vera hvorki til hægri né vinstri. Þá hefur sitjandi stjórn sagt ákvörðun harðra vinstrimann um að sitja heima „mistök“.
Talsmaðurinn Stephane Le Foll sagðist ekki skilja ákvörðunina; vinstrimenn hefðu ávallt verið í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn Þjóðfylkingu Le Pen.
Ein sú stuðningsyfirlýsing við Macron sem vakið hefur hvað mesta athygli kom hins vegar frá Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands, sem sagði Macron eina evrópska ráðherrann sem hefði gert allt til að hjálpa Grikkjum í fjármálakrísunni 2015.
Varoufakis sagði í samtali við Le Monde að á sama tíma og Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Seðlabanki Evrópu hefðu þjarmað að Grikkjum hefði Macron, sem þá var fjármálaráðherra, sannfært Francois Hollande Frakklandsforseta um að opna aftur á viðræður.
Ráðherrann fyrrverandi sagði enn fremur að Macron hefði boðist til að ferðast til Aþenu svo lítið bæri á en Hollande hefði komið í veg fyrir það. Macron hefði verið eini fulltrúi „kerfisins“ sem var á móti hinni harkalegu meðferð á Grikkjum.
Stuðningur Varoufakis þykir mikilvægur þar sem Melenchon á gott samband við Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Evrópuþingmaðurinn Daniel Cohn-Bendit, þekktur franskur stjórnmálamaður, hefur hvatt stuðningsmenn Melenchon til að setja hatur sitt á Macron til hliðar. „Hugsið rökrænt og kjósið Emmanuel Macron og verjið lýðræðið og frelsið,“ sagði hann í samtali við Europe 1.
Macron hafnaði í dag ásökunum Le Pen um að hann gengi erindi fjármálastofnana. „Ég er ekki undir þumli bankanna. Ef ég væri það hefði ég haldið áfram að vinna fyrir þá,“ sagði hann m.a.