Tuttugu þingmenn Repúblikanaflokksins í neðri deild bandaríska þingsins munu hafna eigin heilbrigðislöggjöf ef hún verður lögð fram í núverandi mynd. Fleiri eru óákveðnir en flokkurinn má aðeins við því að 22 flokksmenn segi nei. Frumvarpinu hefur tekið ýmsar myndir á síðustu dögum en allt til einskis.
Gert er ráð fyrir að þingmenn Demókrataflokksins, allir sem einn, muni greiða atkvæði á móti frumvarpinu og því þurfa leiðtogar repúblikana að horfa til allra atkvæða við lagasmíðarnar.
Þingmaðurinn Fred Upton er meðal þeirra repúblikana sem hafa lýst andstöðu sinni en honum hugnast ekki að einstaka ríkjum verði heimilað að sníða löggjöfina eftir geðþótta og t.d. fella niður ákvæði sem skylda tryggingafyrirtæki til að tryggja alla, óháð því hvort þeir hafa áður verið greindir með sjúkdóm.
Umrætt ákvæði, um aukið sjálfræði ríkjanna, skipti sköpum hvað varðar að fá íhaldssama flokksmenn um borð en þessi skylda sem Obamacare lagði á tryggingafélögin nýtur hins vegar víðtæks stuðnings meðal almennings.
Varaforsetinn Mike Pence fundaði með leiðtogum þingflokks repúblikana í gær en nokkurs vafa hefur gætt um stöðu málsins þar sem Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á sunnudag að nýju lögin stæðu vörð um rétt fólks með áðurgreinda sjúkdóma.
Bandarísku læknasamtökin hafa hvatt þingmenn til að hafna frumvarpinu í núverandi mynd.