Vilja þjóðaratkvæði um EES-samninginn

Ljósmynd/norden.org

Fleiri Norðmenn vilja hefðbundinn tvíhliða fríverslunarsamning við Evrópusambandið í stað aðildar Noregs að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) en vilja halda í samninginn samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar þar í landi. Þá eru rúmlega tvöfalt fleiri Norðmenn hlynntir því að fram fari þjóðaratkvæði um aðildina að samningnum en þeir sem leggjast gegn því. Auk ríkja Evrópusambandsins eru Noregur, Ísland og Liechtenstein aðilar að EES-samningnum.

Könnunin var gerð í síðustu viku af fyrirtækinu Sentio fyrir norsku samtökin Nei til EU, sem berjast gegn inngöngu Noregs í Evrópusambandið, en tilefni hennar er að 25 ár eru í dag 2. maí frá því að EES-samningurinn var undirritaður. Samkvæmt henni vilja 35% skipta EES-samningnum út fyrir hefðbundinn fríverslunarsamning en tæpur fjórðungur, eða 23%, eru hlynnt EES-samningnum. Hins vegar tók stærsti hópurinn, eða 43%, ekki afstöðu með eða á móti. Ef aðeins er miðað við þá sem það gerðu eru rúm 60% andvíg aðild Noregs að EES-samningnum en tæp 40% henni hlynnt.

Frétt mbl.is: „Í dag myndi ég kjósa nei“

Þegar spurt var um afstöðuna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina að EES-samningnum sögðust 47% telja tímabært að slík kosning færi fram en 20% andvíg því. Þriðjungur var óákveðinn. Sé aðeins miðað við þá sem tóku afstöðu til þeirrar spurningar eru rúm 70% hlynnt þjóðaratkvæði en tæp 30% því andvíg. Fram kemur á fréttavef norska dagblaðsins Nationen að stuðning við þjóðaratkvæði sé bæði í röðum stuðningsmanna og andstæðinga inngöngu Noregs í Evrópusambandið.

Einnig var spurt um afstöðu Norðmanna til inngöngu í Evrópusambandið í könnuninni og voru 60% andvíg inngöngu og 23% hlynnt henni. 17% eru óákveðin. Ef aðeins er miðað við þá sem taka afstöðu með eða á móti inngöngu eru rúm 72% andvíg inngöngu en tæp 28% henni hlynnt. Mikill meirihluti Norðmanna hefur verið andsnúinn því að ganga í sambandið í öllum könnunum sem birtar hafa verið í Noregi undanfarin tólf ár eða allt frá því snemma á árinu 2005.

Frá Noregi.
Frá Noregi. Ljósmynd/ThinkstockPhotos

Farið verði í ítarlega skoðun á stöðu Noregs

Haft er eftir Irene Johansen, varaformanni norsku Evrópusamtakanna og þingmanni Verkamannaflokksins, í fréttinni að báðar fylkingar séu meðvitaðar um galla EES-samningsins. Ekki síst lýðræðishallanum sem felist í einhliða upptöku Norðmanna á löggjöf frá Evrópusambandinu í gegnum samninginn. Fyrir vikið sé full ástæða til þess að setja umræðu um EES-samninginn á dagskrá. Fylkingarnar séu sammála um vandamálið en hins vegar ekki um lausnina.

„Meðan Evrópusambandssinnar telja að full innganga í Evrópusambandið sé rétta leiðin vilja andstæðingar sambandsins og EES-samningsins fríverslunarsamning,“ segir Johansen. Hún segir hins vegar ekki ljóst hvernig slíkur samningur myndi líta út og að svo virtist sem þeir sem svöruðu væru ekki vissir um það heldur í ljósi þess að 43% væru ekki reiðubúin að velja á milli EES-samningsins og fríverslunarsamnings. Einnig er rætt við Kathrine Kleveland, formann Nei til EU.

Frétt mbl.is: Vill endurskoða EES og Schengen

Kleveland kallar eftir því að farið verði í ítarlega skoðun á stöðu Noregs og tækifærum í kjölfar ákvörðunar Breta að ganga úr Evrópusambandinu. „Stuðningsmenn EES-samningsins verða að komast upp úr skotgröfunum! Tökum umræðu um EES-samninginn. Enginn getur í einlægni talið að það sé enginn betri valkostur en núverandi EES-samningur,“ segir hún. „Margir sem segjast hlynntir EES-samningnum eru það ekki vegna þess að þeir telja hann góðan samning.“

Kleveland kallar eftir því að innan fimm ára fari fram þjóðaratkvæði þar sem valið verði á milli EES-samningsins og mögulegs fríverslunarsamnings við Evrópusambandið sem yrði betri kostur að hennar mati. Spurð hvers vegna ekki sé rétt að slík kosning fari fram strax segir hún að góðar og gildar ástæður séu fyrir því að sjá hvers konar samning Bretar kunni að semja um við sambandið. Johansen tekur undir það í fréttinni að ekki sé tímabært að slíkt þjóðaratkvæði fari fram í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert