Stálin stinn mættust í sjónvarpsviðræðum frönsku forsetaframbjóðendanna Marine Le Pen og Emmanuel Macrons, sem deila ekki sýn á framtíð Frakklands eða hvernig taka eigi á hryðjuverkaógninni. AFP-fréttstofan segir frambjóðendurnar hafa sýnt skapstygga hlið á sér í kappræðunum, en Frakkar ganga að kjörborðinu á sunnudag.
Áður en kappræðurnar hófust hafði miðjumaðurinn Macron 20% forskot á Le Pen, sem er frambjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar. Forsetakosningarnar á sunnudag eru af mörgum taldar mikilvægustu kosningar í landinu í áratugi.
Fyrir Le Pen, voru kappræðurnar sem milljónir Frakka fylgdust með, síðasta tækifærið til að sannfæra kjósendur um ágæti hugmynda sinna. Le Pen vill m.a. ganga hart fram gegn ólöglegum innflytjendum og hætta með evruna.
Í reiðilegum orðaskiptum frambjóðendanna þá beindi Le Pen athyglinni að fortíð Macrons sem bankamanns hjá fjárfestingabanka, efnahagsráðherra sósíalistastjórnarinnar, sem nýtur lítilla vinsælda hjá kjósendum í dag og sem ötuls stuðningsmanns óheftrar alþjóðavæðingar.
Macron sakaði Le Pen á móti við að bjóða upp á engar lausnir við vandamálunum, m.a. við viðvarandi atvinnuleysi í landinu.
Orðaskipti frambjóðendanna urðu þó hvað hvössust er kom að þjóðaröryggi, viðkvæmu umræðuefni í landi þar sem 230 manns hafa farist í hryðjuverkaárásum vígamanna Ríkis íslams frá 2015.
Le Pen sakaði Macron um að vera værukær gagnvart ógninni sem stafaði af íslömskum öfgatrúarmönnum. „Þú hefur engar áætlanir (varðandi öryggi) en þú ert eftirlátur í garð íslamskrar rétttrúnaðarstefnu,“ sagði hún.
Sjálfur kvaðst Macron ætlað að gera hryðjuverkaógnina að einu sínu helsta máli yrði hann kosinn. Hann sakaði hins vegar Le Pen um að vera einföld. „Þínar hugmyndir eru snákaolía,“ sagði hann um þær hugmyndir Le Pen að loka landamærum Frakklands.
„Ég mun berjast gegn hryðjuverkum íslamista á öllum sviðum. En það sem þeir vilja, gildran sem þeir leggja fyrir okkur og sú sem þú ert að þiggja – er borgarastríð,“ sagði Macron.
Le Pen kallaði Macron „glottandi bankamann“ og sagði hann fulltrúa óheftrar alþjóðavæðingar. „Macron er fulltrúi hömlulausrar alþjóðavæðingar, Uber-væðingar, óvissu, samfélagslegs hrottaskaps, þar sem allir eru í stríði gegn öllum .... slátrun Frakklands af hálfu stóru efnahagsrisanna,“ sagði Le Pen og vísaði þar til bandarísku Uber leigubílaþjónustunnar.
Macron kallaði Le Pen aftur á móti lygara og sagði orð hennar bull, sem skorti alla vigt.
Talið er að rúmlega 20 milljónir af 47 milljónum franskra kjósenda hafi fylgst með sjónvarpskappræðunum.
Þetta er í fyrsta skipti sem frambjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar hefur tekið þátt í sjónvarpskappræðum og segir Reuters fréttastofan þetta til marks um að Le Pen hafi tekist að það ætlunarverk sitt að rjúfa á tengsl flokksins við kynþáttahatur fyrri tíma.
Skoðanakönnun Cevipof sem birt var á vef dagblaðsins Le Monde, sem er ein síðasta stóra skoðanakönnunin sem birt verður fyrir forsetakosningarnar, bendir til þess að Macron fái 59% atkvæða en Le Pen 41%.