Pútín og Trump sammála um örugg svæði

Vladimír Pútin Rússlandsforseti segir Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa tekið vel …
Vladimír Pútin Rússlandsforseti segir Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa tekið vel í hugmyndina um öruggu svæðin, er þeir ræddu saman í gær. AFP

Stjórnvöld í Rússlandi, Bandaríkjunum, Tyrklandi, Íran og Sýrlandi eru nærri því að ná samkomulagi um „örugg svæði“ í Sýrlandi sem eiga að auka möguleika á að vopnahlé haldi. Þetta hefur BBC eftir Vladimír Pútín Rússlandsforseta, sem segir að öll flugumferð ætti að vera bönnuð yfir öruggu svæðunum.

Að sögn Pútins tjáði Donald Trump Bandaríkjaforseti honum, í símtali sem forsetarnir áttu í gær, að hann styddi hugmyndina.

Sagði Pútín lokaákvörðun varðandi málið verða tekna í friðarviðræðunum sem nú standa yfir í sýrlensku borginni Astana. Greint var frá því í morgun að sýrlenskir uppreisnarmenn hafi sagt sig frá friðarviðræðum sem hófust í Astana, höfuðborg Kasakstan, í morgun. Ástæðan eru ítrekaðar loftárásir á almenna borgara.

Áætlun Rússa gengur út frá því að öruggu svæðunum verði komið á fót í norðvesturhluta Idlib-héraðs, sem er á valdi uppreisnarmanna, í Homs-héraði í miðhluta landsins og í Ghouta í suðurhluta landsins, að því er AFP-fréttastofan greinir frá.

Öruggu svæðin myndu binda endi á ofbeldi og gera flóttamönnum kleift að snúa aftur og hjálparsamtökum að koma hjálpargögnum til þeirra sem þarfnast þeirra. Eftirlitsstöðvar sem mannaðar yrðu bæði uppreisnarmönnum og hermönnum sýrlenska stjórnarhersins yrðu umhverfis svæðin, sem aukinheldur yrði gætt af erlendum hersveitum sem færu þar með eftirlitshlutverk, segir í drögum að áætluninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert