Tölvupóstum Macrons lekið á netið

Tölvupóstum, sem sagðir eru koma frá framboði Emmanuel Macrons, var …
Tölvupóstum, sem sagðir eru koma frá framboði Emmanuel Macrons, var lekið á netið í dag. AFP

Miklu magni tölvupósta sem fullyrt er að komi frá kosningaskrifstofu Emmanuel Macrons var í dag lekið á netið. Frakkar velja sér nýjan forseta á sunnudag og mun miðjumaðurinn Macron þá keppa við Marine Le Pen, frambjóðanda frönsku Þjóðfylkingarinnar, um forsetastólinn. Skoðanakannanir hafa til þessa bent til þess að Macron væri nokkuð öruggur að hafa sigur á Le Pen, en síðustu kannanir hafa bent til þess að hann nyti hylli um 60% Frakka á móti 40% Le Pen.

Hvort birting tölvupóstanna einum og hálfum sólarhring áður en kjörstaðir opna mun hafa áhrif á fylgi hans liggur ekki fyrir á þessari stundu.

Macron hefur í þessari viku þurft að svara fyrir orðróm um að hann eigi aflandsreikning á Bahama og hefur hann lagt fram kæru vegna þess. Þá greindu rússneskar fréttastofur frá því í kvöld að þær ætli í mál við Macron vegna ásak­ana fram­boðs hans um að fjöl­miðlarn­ir hafi staðið fyr­ir óhróðurs­her­ferð gegn hon­um. 

Reuters-fréttastofan greindi frá því nú í kvöld að um níu gígabætum af efni hafi verið birt á Pastebin, vefsvæði sem heimilar deilingu á efni án þess að notandinn gefi upp nafn sitt. Skjölin voru birt af einhverjum sem kallar sig EMLEAKS og segir Reuters ekki vitað á þessari stundu hvort upplýsingarnar eða póstarnir komi raunverulega frá  framboði Macrons.

Forsetaframbjóðendurnir tveir nýttu daginn í dag vel, en samkvæmt frönskum lögum er bannað að birta skoðanakannanir eða standa fyrir kosningafundum síðasta sólarhringinn áður en kjörstaðir opna.

Starfsmenn framboðs Macrons fordæmdu nú í kvöld þjófnaðinn á tölvupóstunum og sögðu um „umfangsmikinn og samhæfðan netstuld“ að ræða.

„Gögnunum sem nú hafa verið birt var stolið fyrir nokkrum vikum með netstuldi á einkanetföngum og vinnunetföngum nokkurra starfsmanna flokksins,“ sagði í yfirlýsingu frá flokki Macrons, En Marche!.

Fullyrt var í yfirlýsingunni að öll skjölin hafi verið „lögleg“.

Uppljóstrunarsíðan WikiLeaks birti hlekk á vefsvæðið í Twitter-færslu nú í kvöld og sagði þar að finna tugir þúsunda tölvupósta, mynda og viðhengja. Tekið var fram í póstinum að Wikileaks bæri ekki ábyrgð á lekanum, en starfsmenn Wikileaks væru að kanna hluta birtinganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert