Bandaríski grínistinn Stephen Colbert verður tekinn til rannsóknar hjá fjarskiptastofnun Bandaríkjanna (FCC) vegna brandara sem hann sagði um forseta landsins, Donald Trump í þætti sínum The Late Show að því er fréttavefur BBC greinir frá.
Ajit Pai, forstjóri FCC, sagði stofnunina hafa fengið nokkrar kvartanir vegna brandara Colberts, sem sumir áhorfendur hafi sagt vera hómófóbískan.
Colbert kom með kynferðislegar tilvísanir er hann ræddi samskipti þeirra Trump og Vladimír Pútins Rússlandsforseta í þætti sínum The Late Show á CBS sjónvarpsstöðinni sl. mánudag. Ekki voru allir áhorfendur sáttir við myndlíkinguna og tjáðu sumir þeirra sig á Twitter undir myllumerkinu #FireColbert, eða rekum Colbert.
„Við höfum fengið fjölda kvartana,“ sagði Pai sagði í útvarpsviðtali við Rich Zeoli. „Við fylgjum stöðluðu ferli eins og alltaf og tryggjum að við kynnum okkur staðreyndirnar og beitum lögunum af sanngirni.“
FCC kann því að sekta CBS sjónvarpstöðina, verði niðurstaðan sú að brandari Colberts hafi verið ósæmilegur.
Colbert sjálfur segist ekki sjá eftir brandaranum, en að hann myndi breyta orðalaginu eitthvað.
Hann rétti þá fram sáttahönd til samkynhneigðra á miðvikudag er hann sagði: „hver sá sem tjáir ást sína í garð annars einstaklings á sinn hátt, er í mínum huga bandarísk hetja.“
Margir hafa hins vegar einnig komið Colbert til varnar og segja kaldhæðnislegt að það séu kjósendur Trump, sem berjist raunverulega gegn réttindum samkynhneigðra, sem séu að segja Colbert vera hómófóbískan.
Aðrir bentu á að Trump sjálfur hefði notað klúrt orðafar, m.a. þegar hann státaði sig af því í viðtali við sjónvarpskynninn Billy Bush, að hafa stundað kynlíf með giftri konu.