Ólympíumeistarinn Eliud Kipchoge frá Kenía reyndi í morgun að hlaupa maraþon á undir tveimur klukkustundum. Það er óhætt að segja að Kipchoge hafi verið grátlega nálægt því, 25 sekúndum réttara sagt, en tími hans var 2:00,25 klukkustundir.
Kipchoge náði þrátt fyrir það besta tíma heims, en tíminn verður þó ekki skráður sem heimsmet þar sem Keníamaðurinn notaði svokallaðan héra til þess að halda uppi hraðanum. Þá var hann undir eftirliti vísindamanna á meðan hlaupið var. Heimsmet Dennis Kimetto, 2:02,57 klukkustundir, stendur því enn.
Enginn hefur afrekað það að hlaupa maraþon, 42,2 kílómetra, á undir tveimur tímum en Kipchoge ætlaði sér að afreka það í dag ásamt tveimur öðrum hlaupurum, Zersenay Tadese og Lelisa Desisa, sem ekki náðu tilsettum árangri heldur.
Um var að ræða lokaðan viðburð á vegum Nike, en ekki eiginlegt maraþonhlaup. Var hlaupið á Monza-kappakstursbrautinni á Ítalíu.