Leyft að vinna án leyfis frá körlum

Sádiarabísk kona sýnir annarri konu brúðarkjól á sýningu í borginni …
Sádiarabísk kona sýnir annarri konu brúðarkjól á sýningu í borginni Jeddah í apríl síðastliðnum. AFP

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu ætla að veita konum meira frelsi í lífi sínu, bæði í námi, vinnu og þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. 

Konungsdæmið í Sádi-Arabíu er eitt það kynjaskiptasta í öllum heiminum. Konur þurfa að lifa undir stöðugu eftirliti karla. Þær mega ekki keyra bíla og þær verða að klæðast svörtum fötum frá toppi til táar er þær fara út á meðal almennings.

Fjölmiðlar í landinu hafa núna greint frá því að konungurinn Salman bin Abdulaziz Al Saud hafi gefið út tilskipun sem leyfir konum að sækja sér menntun og heilbrigðisþjónustu án þess að fá leyfi til þess frá körlum, samkvæmt frétt Independent

Tilskipunin hefur í för með sér að konur gætu undir sumum kringumstæðum stundað nám, fengið heilbrigðisþjónustu, starfað í einka- og almenna geiranum og staðið fyrir máli sínu í dómstólum án samþykkis karlkyns verndara sinna. Þetta sagði Maha Akeel, baráttukona fyrir réttindum kvenna, og stjórnandi samtaka sem berjast fyrir aukinni samvinnu á meðal þeirra sem iðka íslamska trú.

„Núna eru dyrnar að minnsta kosti opnar fyrir umræðu um verndara-kerfið,“ sagði Akeel. „Konur eru sjálfstæðar og þær geta hugsað um sig sjálfar.“

Salman bin Abdulaziz al-Saud, konungur Sádi-Arabíu.
Salman bin Abdulaziz al-Saud, konungur Sádi-Arabíu. AFP

Þróunin í þessa áttina hófst árið 2011 þegar konungurinn leyfði konum að taka þátt í Shura-ráðinu sem veitir ríkisstjórninni ráðgjöf. Konur geta núna kosið í sveitarstjórnarkosningum, starfað að einhverju leyti við smásölu og í þjónustugeiranum, auk þess sem þeim var leyft að taka þátt í Ólympíuleikunum í fyrsta sinn árið 2012.

Sádi-Arabía er þó enn í 141 sæti af 144 á lista yfir þær þjóðir þar sem kynjamisréttið er mest í heiminum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert