Kosningaþátttaka í frönsku forsetakosningunum mældist 28,23% klukkan 12 að frönskum tíma (klukkan 10 að íslenskum) að sögn franska innanríkisráðuneytisins. Í kosningunum fyrir fimm árum mældist þátttakan á sama tíma 30,66%.
Í fyrri umferð forsetakosninganna, sem fór fram 23. apríl, mældist þátttakan um hádegisbil 28,54%.
Almennt er kosningaþátttaka góð þegar það kemur að forsetakjöri í Frakklandi, eða um 80%.
Seinni umferðin, þar sem þau Emmanuel Macron og Marine Le Pen berjast um embættið, fer fram þegar það er þriggja daga helgi í Frakklandi. Þetta er í fyrsta sinn í sex áratugi þar sem fulltrúar frá hinum hefðbundnu flokkum eru ekki í framboði.
Í nýlegri könnun sögðust 10% svarenda vera óánægð með að þurfa að velja á milli Macron og Le Pen.
Innanríkisráðneytið mun birta næstu tölur yfir kosningaþátttöku klukkan 15 að íslenskum tíma. Búist er við fyrstu tölum um klukkan 18 að íslenskum tíma.