Rússar lögðu til fjármagn til gerðar golfvallar Trump-fjölskyldunnar fyrir þremur árum. Eric Trump, sonur Donald Trumps Bandaríkjaforseta, greindi frá því í samtali við James Dodson, sem sérhæfir sig í skrifum um golfíþróttina, að Trump samsteypan hefði „allt fjármagn sem hún þyrfti“ frá Rússlandi.
Donald Trump lét við sama tilefni þau orð falla að hann hefði aðgang að 100 milljónum dollara.
Guardian fjallar um málið í dag og segir endurminningar Dodson á fundi sínum með Trump-feðgunum árið 2014 vekja upp fjölda spurninga.
Tvær þingnefndir og bandaríska alríkislögreglan vinna þegar að rannsókn á tengslum starfsmanna framboðs Trumps við ráðamenn í Rússlandi og einnig hafa verið uppi grunsemdir um að rússnesk stjórnvöld hafi reynt að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar og snúa þeim Trump í hag, með gagnastuldi og birtingu á tölvupóstum frá skrifstofu landsnefndar Demókrataflokksins.
Guardian bendir á að margir stjórnmálaskýrendur séu þeirrar skoðunar að skattaskýrslur Trumps, sem hann hefur neitað að gera opinberar þrátt fyrir að 40 ára hefð sé fyrir því að Bandaríkjaforsetar geri slíkt, innihaldi sannanir um tengsl hans við rússnesk fyrirtæki.
Trump hefur ítrekað neitað öllum slíkum tengslum, þrátt fyrir að fyrri yfirlýsingar hans, áður en hann bauð sig fram til forseta gefi annað í skyn.
Dodson rifjaði upp heimsókn sína í Trump-golfklúbbinn í Charlotte í Norður-Karólínuríki við útvarpsstöðina WBUR-FM í Boston á föstudag.
„Trump stikaði fram og aftur og ræddi við nýja klúbbfélaga um það hvernig þeir væru hluti af flottasta klúbbinum í Norður-Karólínuríki,“ sagði Dodson. „Þegar ég hitti hann fyrst, og þetta var blaðamaðurinn í mér sem spurði: „Hvernig fjármagnarðu þessa velli?“ Og hann bara kastaði því fram að hann hefði aðgang að 100 milljónum dollara.“
Eric Trump, yngri sonur forsetans sem er nú aðstoðarforstjóri Trump-samsteypunnar, var einnig viðstaddur.
„Síðan settist ég inn í golfbíl með Eric og þegar við lögðum af stað þá spurði ég: „Eric hver fjármagnaði þetta? Ég veit ekki um neina banka, vegna kreppunnar, kreppunnar miklu, sem koma nærri golfvelli. Það er enginn að fjármagna neina golfvelli og hefur ekki gerst síðustu fjögur-fimm ár“,“ sagði Dodson.
Eric segir hann hafa svarað sér þannig: „Við reiðum okkur ekki á bandaríska banka. Við fáum allt fjármagn sem við þurfum frá Rússlandi.“ „Og ég spurði, virkilega?“ „Og hann svaraði, já. Við erum með nokkra náunga sem virkilega elska golf og þeir hafa mikinn áhuga á áætlunum okkar. Við förum oft þangað“,“ sagði Dodson og benti á að þetta hefði verið fyrir þremur árum síðan sem væri ansi áhugavert.
Trump hefur ítrekað afneitað öllum rússneskum tengslum frá því hann tók við og stuttu fyrir embættistöku sína í janúar sagði hann á Twitter: „Rússar hafa aldrei reynt að nýta vogarafl sitt gegn mér. Ég hef ekkert með Rússland að gera – enga samninga, engin lán, ekkert!“
Þessi fullyrðing er ekki í samræmi við orð forsetans í samtali við tímaritið Real Estate Weekly árið 2013, skömmu eftir að hann hélt eina af undankeppnum Miss Universe í Moskvu. Þá sagðist Trump rússneska markaðinn laðast að sér. „Ég hef frábær sambönd við marga Rússa,“ sagði hann og kvað hér um bil alla rússneska óligarka hafa tekið þátt í partíi sem hann hélt.
Eldri sonur Trumps, Donald jr., hefur einnig rætt um fjárhagsleg tengsl Trump-samsteypunnar við Rússland. Árið 2008 lét hann þess getið á fasteignaráðstefnu að samsteypan horfði til margra ríkja, en „aðallega Rússlands.“
„Hvað varðar dýrari eignir okkar, þá eru Rússar óvenjufjölmargir í fjármögunnarhópinum; m.a í Dubai og einnig í vissum verkefnum í SoHo og annars staðar í New York. Við sjáum mikið fjármagn koma frá Rússlandi,“ sagði Donald yngri.
Trump hefur verið gagnrýndur fyrir að eyða löngum stundum á golfvöllum sínum og nú um helgina tók hann hring á golfvelli sínum í Bedminster í New Jersey.
Dodson minntist þess að Trump faðmaði hann á fundi þeirra og sagði; „Veistu hvað, ég kunni vel við manninn. Ég kunni vel við hann. Þetta var maður sem mann langaði að spila golf með.“